Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:55:10 (2867)

2003-12-06 10:55:10# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði örugglega rétt, að hæstv. ráðherra sagði að það væri ekki um inngrip í kjarasamninga að ræða. Er hæstv. ráðherra, þó að hann trúi ekki orðum mínum, að segja að t.d. formaður matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands fari með rangt mál?

Ég margfór yfir það sem Aðalsteinn Baldursson sagði. Hann telur þetta augljóslega inngrip í kjarasamninga og rekur það skilmerkilega í grein sinni. Hann segir þar meira að segja, herra forseti, að hann muni ekki skrifa undir næstu kjarasamninga nema hæstv. ráðherra sjái að sér og falli frá þessum ákvörðunum. Þetta eru því augljóslega inngrip í kjarasamninga. Þessi lög fylgdu kjarasamningum á árinu 1995. Þau urðu til við kjarasamninga. Þau voru þá sett til að hægt væri að ljúka kjarasamningum á árinu 1995. Þau lög urðu til þess að ekki urðu átök á vinnumarkaðinum í tengslum við kjarasamninga.

Ég get fullvissað ráðherrann um að hér er um inngrip í kjarasamninga að ræða sem ríkisstjórnin gerir með afar óeðlilegum hætti.

Ég fagna því hins vegar ef hæstv. ráðherra vill skoða lögin sem sett voru 1957, um uppsagnarfrest starfsfólks. Ég spyr: Er hann að bjóða upp á að 3. gr. verði felld brott, að þetta sérákvæði fiskvinnslufólks verði fellt brott? Ef hæstv. ráðherra upplýsir það þá er það mikilvægt innlegg í þá umfjöllun sem á eftir að fara fram í hv. félmn.