Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:17:07 (2874)

2003-12-06 11:17:07# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er lagt fram, um breytingu á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, er eitt skrefið á þeirri vegferð Framsfl. bæði að svíkja kosningaloforð sín og að vega að því fólki sem hefur erfiðasta stöðu í þjóðfélaginu. Það er með endemum hvernig hægt er dag eftir dag að leggja fram hverja tillöguna á fætur annarri, hvert frv. á fætur öðru sem vegur að kjörum fólks. Við ræddum í gær um öryrkjana, hvernig þeir hefðu verið sviknir um 500 millj. kr. sem hafði annars verið gert samkomulag um skömmu fyrir kosningar. Við vorum að afgreiða fjárlög þar sem sparnaður og aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar áttu fyrst og fremst að bitna á atvinnulausu fólki með því að skerða rétt þeirra til atvinnuleysisbóta fyrstu þrjá dagana í atvinnuleysi. Það átti að beita aðhaldsaðgerðum gagnvart sjúklingum með því að hækka komugjöld á heilbrigðisstofnunum og hjá sérfræðingum. Það átti að beita aðhaldsaðgerðum gagnvart sjúklingum sem þurfa að kaupa sér lyf með því að hækka hlut þeirra í lyfjakostnaði. Já, það eru þessi bökin sem eiga að bera aðhaldsaðgerðir og sparnaðaraðgerðir þessarar ríkisstjórnar og það frv. sem hér er lagt fram er eitt skrefið á þeirri vegferð.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson rakti ítarlega hvernig þetta lýtur að fiskvinnslufólkinu og þeim kjarasamningum sem þessi þáttur í frv. snýr að en upphaflega var þetta þríhliða samningur á milli ríkisvaldsins, atvinnurekenda og samtaka launafólks, samtaka fiskvinnslufólks. Nú kemur ríkisstjórnin með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar og rýfur einhliða þessa samningsgjörð.

Fiskvinnslan vítt og breitt um landið hefur nú átt nokkuð undir högg að sækja hvað varðar rekstrarskilyrði. Vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og áherslunnar þar hefur gengið hækkað verulega og lánskjör fara einnig versnandi. Fiskvinnslan stendur eins og annað atvinnulíf í landinu, frammi fyrir boðuðum stórum vaxtahækkunum og gengið hefur þegar, óraunhæft hátt gengi sem keyrt er upp á væntingum í kringum stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, komið hart niður á útflutningsgreinum eins og fiskvinnslunni. Í fréttum sem komu í fjölmiðlum fyrir skömmu, m.a. í Ríkisútvarpinu 28. nóvember sl., var greint frá því að verðmæti útfluttra sjávarafurða væri 9% minna núna fyrstu tíu mánuði ársins en á sama tíma í fyrra. Og hver er ástæðan? Ástæðan er m.a. versnandi samkeppniskjör, lækkun á erlendum mörkuðum en ekki síst óraunhæft hátt gengi, gengi á íslensku krónunni sem hentar engan veginn við íslenskar efnahagsaðstæður eins og þær eru í dag og hljóta að skerða samkeppnisstöðu og rekstrarafkomu þessara fiskvinnslufyrirtækja.

Fiskvinnslan og sjávarútvegurinn byggjast á því að sækja þessi verðmæti út á miðin til sjávarins og eru þar af leiðandi líka bæði háð veðri og ýmsum náttúrufarslegum skilyrðum sem enginn fær við ráðið. Þetta höfum við búið við árum og öldum saman. Og til þess að tryggja bæði afkomu og atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og líka rekstrarstöðu fyrirtækjanna var sá samningur gerður að Atvinnuleysistryggingasjóður kæmi hér að og tryggði annars vegar rekstrarstöðu fyrirtækjanna og hins vegar líka atvinnuöryggi og tekjur fiskvinnslufólksins. Fiskvinnslufyrirtækin hafa samkvæmt þessum samningi fengið um 70% af föstum launum ef þau hafa lent í því að ekki væri hráefni fyrir hendi og fiskvinnslufólk hefði þá annars verið sent heim tekjulaust ef þessir samningar hefðu ekki komið til.

Ég tel, virðulegi forseti, að gagnvart rekstraröryggi þessara fyrirtækja, ekki aðeins fiskvinnslu sem er án fiskveiðiheimildar heldur líka gagnvart þessum litlu og meðalstóru fiskvinnslufyrirtækjum í landinu, ekki síst þeim fiskvinnslufyrirtækjum sem eru á Norðvesturlandi, Norðurlandi, Suðvesturlandi og Norðausturlandi, geti það skipt sköpum hvort þeim tekst að halda rekstri gangandi. Þau hafa treyst á þetta sem lið í því að halda uppi rekstrarafkomu fyrirtækjanna og að vega að þessum atvinnurekstri eins einhliða og hér er gert er fullkomlega ábyrgðarlaust. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið sögð af hv. þingmönnum Ögmundi Jónassyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Grétari Mar Jónssyni að þessum lögum verður að breyta. Þessu frv. sem hér er lagt fram verður að breyta. Það er mikill hroki og mikil vanþekking hjá hæstv. ráðherra ef hann telur að það séu eðlileg vinnubrögð að keyra svona víðtækar breytingar á kjarasamningum, atvinnuumhverfi heillar atvinnugreinar og kjörum og réttindum fiskvinnslufólks, í gegnum Alþingi á þrem dögum samráðslaust við aðila vinnumarkaðarins. Hæstv. ráðherra sagði að haft hefði verið nokkurt samráð við samtök vinnuveitenda, samtök atvinnurekenda sem þarna lúta að. Við heyrðum hv. þm. Ögmund Jónasson vitna í það sem Arnar Sigurmundsson sagði um þetta, fullkomið ósamráð og brot á þeim samningum sem þessi atvinnugrein hefur búið við. Og við heyrðum hvað samtök launafólks segja, að verið sé að skera upp herör gagnvart launþegahreyfingunni og væntanlegum kjarasamningum og réttindum fólks. Það er því fullkominn hroki og dómgreindarleysi að keyra þetta mál inn í þingið með þessum hætti og ætlast til þess að það verði afgreitt á 3--4 dögum.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að hér er verið að svíkja samninga með einhliða hætti. Hér er verið að stefna rekstraröryggi fiskvinnslufyrirtækja vítt og breitt um landið í aukna tvísýnu og er hún þó ærin fyrir vegna stefnu ríkisstjórnarinnar almennt í þeirri umgjörð sem hún skapar útflutningsatvinnugreinunum og síðast en ekki síst er verið að vega með harkalegum hætti að kjörum og atvinnuöryggi fiskvinnslufólks. Ég vona svo sannarlega að Alþingi sjái hvað hér er á ferðinni og taki ekki í mál að afgreiða lög með þeim hætti sem hér er farið fram á.