Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 12:06:14 (2880)

2003-12-06 12:06:14# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Því hefur verið haldið fram að með þeim breytingum sem hér hefur verið lagt til að gerðar verði á lögum nr. 51/1995 sé verið að kollvarpa núverandi kerfi og gera samninga um kauptryggingar ómögulegar. Þessu hafna ég.

Breytingar þær sem hér er lagt til að verði gerðar á lögunum ganga ekki eins langt og hefði mátt hugsa sér. Ýmsar útfærslur voru skoðaðar í aðdraganda að þessu frv. sem gengu mun lengra en hér er lagt til, m.a. kom til álita að leggja þetta kerfi alfarið af. Það var hins vegar mat mitt að slíkar breytingar mundu ganga of nærri núverandi kerfi og erfitt kynni að vera fyrir fyrirtæki að nýta sér það í samningum um kauptryggingar. Markmiðið var að ná fram aukinni skilvirkni í kerfinu og um leið sparnaði þó þannig að tryggt væri að fyrirtæki í fiskvinnslu gætu nýtt sér greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar hráefnisskortur er sannanlega fyrir hendi svo að komast megi hjá uppsögnum.

Ég get því ekki verið sammála þeirri fullyrðingu að verið sé að kollvarpa kerfinu með þeim breytingum sem hér eru kynntar. Þvert á móti er með þessum tillögum tryggt að ákvæði kjarasamninga um kauptryggingar geta haldið sér að því marki sem hér er lagt til. Kerfið er í grundvallaratriðum hið sama þó dögum sem greiðsla er innt af hendi hafi fækkað. Vonir standa þó til að fyrirtækin sjái sér fært að greiða laun fyrir þá daga sem ekki er greitt fyrir úr sjóðnum, enda eru þessir dagar á sitt hvorum árshelmingnum. Hér er því ekki um inngrip í kjarasamninga að ræða og samningar um þessi efni geta haldið áfram ef vilji er fyrir hendi. Aðilar á vinnumarkaði og einkum fyrirtæki í fiskvinnslu verða hins vegar að meta það sjálf hvort þau hyggjast nýta sér heimild til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli þessara laga. Minnt er á að allt að 77 millj. kr. er hægt að ráðstafa á næsta ári í slíkar greiðslur til fiskvinnslustöðva samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum.

Þá má benda á að tiltölulega fá fyrirtæki sækja um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði í fleiri en 30 daga á ári hverju. Á þessu ári eru það um 15 af 98 fyrirtækjum. Leikur nokkur grunur á að sum fyrirtækjanna hafi litið á það sem sjálfsagðan hluta af rekstri sínum að sækja um greiðslur í sjóðinn á meðan flest fyrirtækjanna hafa kosið að sækja í sjóðinn í samræmi við tilgang laganna og kauptryggingarsamninga. Er því markmiðið, eins og ítrekað hefur komið fram, að auka skilvirkni og eftirlit í því skyni að tryggja að fiskvinnslufyrirtækin sitji við sama borð í þessu efni og nýti sér þessa heimild á sambærilegum forsendum.

Hæstv. forseti. Almennt má segja að sú stefna hafi verið ríkjandi að dregið er úr sértækum stuðningi við einstakar atvinnugreinar. Slíkur stuðningur mismunar fyrirtækjum á samkeppnismarkaði og er ekki heppilegur í því umhverfi sem við búum við.

Hæstv. forseti. Frv. sem hér hefur verið lagt fram gerir ráð fyrir að hægt sé að taka tillit til sérstakra aðstæðna sem upp koma hjá einstökum fyrirtækjum og á einstökum stöðum. Slík heimild er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum. Því er það svo að þó að dögum sem greitt er fyrir sé fækkað úr 60 í 30 þá verður hægt að veita undanþágu frá þeirri reglu í sérstökum tilvikum. Það er eðlilegt að tekið sé mið af samfélagslegum og byggðalegum aðstæðum þegar slík tilvik eru metin. Ég ítreka að félmrn. mun leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins um efni reglugerðar og legg áherslu á að samstaða náist milli aðila um þessa útfærslu sem og annað sem setja þarf í reglugerð.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja að það hefur verið gagnrýnt hér hve seint þetta mál kemur fram. Það er vissulega rétt að gott hefði verið að fá málið fyrr fram á Alþingi. Staðreyndin er sú að við undirbúning þessa máls var þess freistað að gera frv. þannig úr garði sem mest sátt næðist um það. Við þá vinnu komu fram gagnlegar ábendingar frá forsvarsmönnum Samtaka fiskvinnslustöðva þó ekki hafi verið hægt að taka fullt tillit til þeirra allra frekar en almennt gerist.