Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 12:12:58 (2882)

2003-12-06 12:12:58# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að hafna alfarið þeirri fullyrðingu að verið sé að leiðrétta einhverja samkeppnisaðstöðu fyrirtækja með þessari lagasetningu. Mér finnst það bara hrein og klár vitleysa að halda því fram og ég sé engin rök fyrir því að óbreytt lög séu að hefta einhverja samkeppni. Það má vel færa fyrir því fullgild rök að þessi breyting muni einmitt auka mun þeirra fyrirtækja sem hafa yfir kvóta að ráða og þeirra fyrirtækja sem hafa ekki yfir kvóta að ráða, fiskvinnslu í tengslum við útgerð.

Frú forseti. Ég bar upp spurningu fyrr í ræðu minni. Í bréfi Kristjáns Bragasonar frá Starfsgreinasambandinu komu fram áhyggjur um að þessar breytingar gætu leitt til þess að fiskvinnslur sem glímdu við hráefnisskort hættu við að nýta sér þessa skemmri lokun sem núgildandi lög bjóða upp á, þ.e. þriggja daga regluna og það muni frekar leiða til þess að fyrirtæki loki í lengri tíma. Ég hefði haft hug á því að hæstv. ráðherra svaraði því hvort þessi lagasetning gæti leitt til þess að fiskvinnslur sem glíma við erfiðleika vegna hráefnisskorts muni frekar loka í lengri tíma og þá muni jafnvel kostnaðurinn verða enn meiri en er við núgildandi lög.