Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 12:15:25 (2884)

2003-12-06 12:15:25# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Frú forseti. Mér virðist hafa komið fram í máli hæstv. ráðherra að hann vilji leita samráðs við verkalýðshreyfinguna um þau atriði sem frv. þetta snertir. Hann vill leita samráðs við verkalýðshreyfinguna um ákvæði í öðrum lögum frá 1959, sem var breytt aftur 1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Ég tel að það þurfi að fella niður þá grein, 3. gr., og ég hygg að það hafi ekki verið skoðað í tengslum við að setja þetta frv. saman. Ég held að við þurfum líka að skoða hvort þetta sé ekki úrelt ákvæði og hvort um sé að ræða ákvæði sem stangast á við það jafnræði sem við viljum að fólk búi við og getið er um í stjórnarskránni, að það gildi einhver sérákvæði um fiskvinnslufólk.

Af því að sá vilji hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra vil ég spyrja hann hvort hann sé ekki reiðubúinn til að fresta afgreiðslu á þessu máli fyrir jól þannig að eðlilegt svigrúm gefist til að ræða við verkalýðshreyfinguna í heild og breidd um þetta mál með það í huga að ná samkomulagi um breytingar sem hugsanlega eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir misnotkun á þessum lögum. Þannig mundu menn afgreiða þetta mál í fullu samkomulagi við verkalýðshreyfinguna út frá réttum forsendum.

Að vísu skil ég ekki hvernig hæstv. ráðherra ætlar að ná fram tugmilljóna króna sparnaði án þess að það komi niður á kjörum fiskvinnslufólks. Það þyrfti t.d. að ræða við verkalýðshreyfinguna. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann væri reiðubúinn til samkomulags um að fresta afgreiðslu þessa máls fram yfir jólin þannig að svigrúm gefist til að ræða við verkalýðshreyfinguna um breytingar á þessum lögum.