Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 12:34:50 (2890)

2003-12-06 12:34:50# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Meginmarkmið með frumvarpinu er að stíga fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Þetta er gert í fullu samræmi við samkomulag sem handsalað var við forustumenn Öryrkjabandalags Íslands hinn 25. mars sl.

Samkomulagið var gert í framhaldi af formlegum og óformlegum viðræðum heilbr.- og trmrh. og forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands. Viðræðurnar höfðu staðið í u.þ.b. heilt ár eða frá því í febrúar 2002. Í þeim viðræðum lagði Öryrkjabandalagið sérstaka áherslu á að sérstaða þeirra sem yngstir eru metnir öryrkjar yrði bætt. Þetta samkomulag var einnig gert í tilefni Evrópuárs fatlaðra.

Samkvæmt samkomulaginu var lagt til að skipaður yrði starfshópur sem gera ætti endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar og útfæra með því samkomulagið endanlega sem taka á gildi 1. jan. 2004. Markmið starfshópsins var sömuleiðis að auka möguleika öryrkja til atvinnuþátttöku.

Í samkomulaginu sem handsalað var var gert ráð fyrir að starfshópurinn skyldi miða störf sín við framangreint samkomulag sem fól í sér eftirfarandi meginþætti:

Að stíga fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Að tryggja að þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fengju þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sem nemi allt að tvöföldun grunnlífeyri.

Að tryggja að þeir sem verði öryrkjar síðar á lífsleiðinni fengju hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri þannig að þeir sem verði öryrkjar 67 ára fengju grunnlífeyri sem næmi sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins og hækkunin kæmi til framkvæmda 1. jan. 2004.

Í samkomulaginu fólst sömuleiðis að starfsendurhæfing öryrkja verði efld og taki mið af þeim margvíslegu möguleikum sem nú hafa skapast með breyttum atvinnuháttum. Er þetta gert til að ýta undir og opna möguleika öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu á sínum forsendum. Samkomulagið fól líka í sér það sem menn vilja gleyma, vitandi eða óafvitandi, þá samþykkt ríkisstjórnarinnar að kostnaður við breytingarnar skyldi verða um einn milljarður kr. Virðulegi forseti. Þetta eru staðreyndir þessa máls.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um almannatryggingar og gerir ráð fyrir nýrri 15. gr. í lögin sem fjallar um aldurstengda örorkuuppbót sem greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri, fullan slysaörorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri. Aldurstengda örorkuuppbótin lýtur sömu reglum og örorkulífeyrir varðandi búsetutíma, örorkumat og skerðingu vegna tekna. Fjárhæð uppbótar miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki eða uppfyllti skilyrði endurhæfingarlífeyris. Gert er ráð fyrir að mánaðarleg fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar verði hlutfall af óskertum mánaðarlegum örorkulífeyri, þ.e. hlutfall af 20.630 kr. og miðist við fæðingardag. Er hlutfallið 100% þegar öryrki er 18 og 19 ára en lækkar frá 20 ára aldri til og með 66 ára.

Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. jan. 2004 og gildi um umsóknir sem berast Tryggingastofnun ríkisins eftir þann tíma. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem sótt hafa um eða fá greiddan örorkulífeyri, fullan slysaörorkulífeyri eða endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins við gildistöku laganna, fái aldurstengda örorkuuppbót án þess að þurfa að sækja sérstaklega um uppbótina hjá stofnuninni.

Að lokum er gert ráð fyrir að eftir 1. júlí 2004 verði lagt mat á það hvernig til hafi tekist við að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Kostnaður ríkissjóðs af frv. verður samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um einn milljarður kr. og því til viðbótar er um 10 millj. kr. tímabundinn kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins við að innleiða hinn nýja lífeyri.

Virðulegi forseti. Hér er verið að stíga stærsta framfaraspor í málefnum öryrkja sem stigið hefur verið um langt árabil. Það er því mjög miður að reynt skuli hafa verið að snúa þessum sigri öryrkjanna upp í það sem ég hef kallað svikabrigsl. Þetta eru ein mestu framfaraspor í málefnum öryrkja vegna þess að hér er verið að innleiða kerfisbreytingu þar sem sérstakt tillit er tekið til þess hvenær menn verða öryrkjar. Sú viðurkenning og þeir fjármunir sem renna til þessa hóps, sem hefur goldið örorku sinnar, er í sjálfu sér stórt skref fram á við í réttindabaráttu öryrkja. Sú hugmyndafræði að miða bæturnar í dag við greiningaraldur öryrkjans er réttlát og með þeirri hugmynd er lagður grunnur að bættum hag öryrkja til framtíðar á grundvelli þess hvenær hann eða hún var greind öryrki.

Þetta er líka framfaraspor vegna þess að í kerfisbreytingunni felst að rofin eru hin sjálfvirku tengsl sem lengi hafa verið milli þeirra bótafjárhæða almannatrygginga sem runnið hafa nokkuð jafnt til elli- og örorkulífeyrisþega í landinu. Kerfisbreytingin felur með öðrum orðum í sér að nú tekst okkur að lyfta grettistaki fyrir tiltekinn hóp þeirra sem illa standa í stað þess að dreifa takmörkuðum fjármunum til allra. Þetta gerum við vegna þess að það liggur í augum uppi. Aðstæður þeirra sem greinast öryrkjar á unga aldri eru nefnilega í öllum atriðum frábrugðnar aðstæðum þess sem hefur verið virkur á vinnumarkaði allt sitt líf.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að hafa þetta hugfast þegar við ræðum þetta samkomulag. Þegar við formaður Öryrkjabandalags Íslands byrjuðum að ræða saman um hvernig bæta mætti hag öryrkja sérstaklega þá byrjuðum við á núllpunkti. Við byrjuðum á núllpunkti og enduðum í milljarði að þessu sinni. Sá árangur er sigur að mínu mati en ekki svik. Ég hafði áður lýst því yfir að ég vildi bæta samskiptin við Öryrkjabandalagið af því að mér er ljóst að þeirra tæki eru takmörkuð í réttindabaráttunni. Þetta er ástæðan fyrir því að formaður Öryrkjabandalagsins og ég fórum að tala saman og þetta varð niðurstaðan.

Það hefur verið ríkur vilji til þess síðustu missirin að bæta hag öryrkja og það getur enginn haldið öðru fram en að hagur þeirra hafi vænkast verulega og er afar brýnt að menn hugsi um þetta samhengi þegar þeir ræða um þann milljarð sem nú rennur til öryrkja og mest til þeirra sem metnir voru ungir öryrkjar.

Virðulegi forseti. Hvað erum við að tala um hér? Hvernig hafa kjör öryrkja breyst og hvernig verða þau að þessu frv. samþykktu?

Það er talað um að ég hafi svikið öryrkja og að við framsóknarmenn höfum svikið þá. Hvað eru menn þá að tala um? Förum aðeins yfir dæmi um 75% öryrkja sem er greindur öryrki 18 ára gamall til að varpa ljósi á þá miklu breytingu sem verður á hag þessa hóps.

Á árinu 2000 var 75% öryrki sem er 18 ára gamall með 72.855 kr. á mánuði í bætur. Ári síðar var hann með 80 þús. kr. í bætur. Árið 2002 var þessi upphæð tæpar 90 þús. kr. Í ár erum við að tala um 98 þús. kr. og eftir 1. janúar, eða þegar frv. verður að lögum, þá erum við að tala um stökk upp í 126 þús. kr. á mánuði. Það er þetta samhengi sem við erum tala um. Við erum að tala um beina hækkun bóta í þessu sambandi upp á 74% hækkun frá árinu 2000. Sami maður fær rúmlega 40% hærri bætur en hann fékk árið 2002. Við erum að tala um að þessi bótaflokkar hafi hækkað um 58% frá árinu 2001 og við erum að tala um að þeir hafi hækkað um 74% frá árinu 2000.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er þetta sigur fyrir öryrkjann. Þetta er sigur fyrir öryrkjana sem greindir voru öryrkjar á unga aldri.

Virðulegi forseti. Það eru ekki aðeins bótaflokkarnir sem hér um ræðir sem hafa verið hækkaðir. Fyrir utan þær miklu breytingar hefur á sama tíma verið dregið verulega úr áhrifum atvinnutekna á bætur þess hóps sem við erum hér m.a. að tala um.

Frá miðju ári 2001 skertu aðeins 60% af tekjum öryrkja tekjutrygginguna en skerðingin var áður krónu fyrir krónu. Breytingin gagnaðist sérstaklega þeim sem höfðu einhverjar atvinnutekjur. Frá 1. janúar í fyrra var hagur þessa hóps enn bættur þegar hlutfallið var enn lækkað í 45%. Í þriðja lagi var enn dregið úr skerðingu bótanna þegar áhrifin á tekjutryggingaraukann voru lækkuð í 67% í 45%. Hér eru þrjár aðgerðir sem bæta hag öryrkjanna enn frekar og enn umfram þær miklu prósentutölur sem ég nefndi.

Virðulegi forseti. Ég hef tekið sterkt til orða um það hve grábölvað mér þykir, sem tryggingaráðherra, að sitja undir svikabrigslum í ljósi þessara staðreynda, og mér sem ráðherra í ríkisstjórn sem hefur beitt sér fyrir þessum miklu breytingum þykir afar leitt að þurfa að standa í þeim flokkspólitíska slag sem rekinn hefur verið innan og utan Alþingis síðustu dagana.

[12:45]

Þær miklu hækkanir sem ég hef gert hér að umtalsefni og breytingin á kjörum öryrkja kom líka fram sem umtalsverð kaupmáttaraukning bóta umfram kaupmátt launa. Ef við tökum valdatíma okkar framsóknarmanna í ríkisstjórn og trmrn. þá hefur vísitala allra bóta hækkað um 46% frá árinu 1995 á móti 34% hækkun kaupmáttar launa. Ef við skoðum málið síðustu missiri hefur kaupmáttur launa aukist um 10% frá árinu 2000, bætur grunnlífeyris og tekjutryggingar hafa hækkað nokkuð umfram kaupmátt launa en kaupmáttur allra bótaflokka örorkulífeyrisþegans sem hér er tekinn sem dæmi og verst stendur hefur aukist um rúmlega 24% samkvæmt tölum fjmrn. Þetta er fjórðungshækkun kaupmáttar þessara bóta síðustu missiri, breyting langt umfram kaupmátt launa og enginn trmrh., engin ríkisstjórn í seinni tíð getur státað af árangri á borð við þennan. Ég kalla þetta ekki svik. Ég kalla þetta sigur fyrir öryrkja og ég hygg að flestir muni túlka það þannig þegar frá líður.

Það hefur verið seilst langt til að koma höggi á heilbr.- og trmrh. í þessu máli að mínu mati. Það hefur verið gert með því að reyna að telja mönnum trú um hugmyndir sem reifaðar voru á undirbúningsstigi málsins, að það hafi verið undirritað samkomulag, að einhliða túlkun talsmanna öryrkja áður en farið var að ræða útfærslu málsins, sérsamkomulagið, að útreikningur á þessum hugmyndum sé hið eina rétta kostnaðarmat og svo mætti lengi telja. Það hefur verið snúið út úr þessu máli á alla enda og kanta eins og þjóðin hefur getað fylgst með undanfarið. Mér finnst það mjög miður. Ég undirstrikaði sérstaklega eftir að samkomulagið var gert að það ætti eftir að útfæra það í krónum og aurum. Ég sé það nú að mestu mistök mín í málinu, bæði gagnvart samstarfsmönnum mínum og öryrkjunum sjálfum, sem ég hef sérstaklega í huga í þessu sambandi, eru kannski þau að hafa ekki gengið frá öllum lausum endum í málinu í upphafi. Ég viðurkenni að það hefði mátt standa öðruvísi að málinu tæknilega en það breytir því ekki að sérstakur starfshópur átti að útfæra samkomulagið og þann starfshóp skipaði ég 6. maí. Starfshópurinn fékk það hlutverk að útfæra hina endanlegu tæknilegu útfærslu málsins. Hann fékk það hlutverk m.a. að kanna hvort aldurstengdar greiðslur ættu líka að ná til endurlífeyris, til slysaörorkulífeyris, hvort það skyldi vera fyrsta örorkumat eða örorkumat endurhæfingarlífeyris sem ráða ætti því hvenær viðkomandi teldist öryrki eða hvernig aldurstengingin yrði útfærð. Það er afar mikilvægt að halda því til haga vegna þess að forsendurnar skipta öllu máli um útkomuna úr því reikningsdæmi sem að endingu verður sett upp til að meta endanlegan kostnað við samkomulagið.

Það skiptir t.d. máli hvort miðað er við 10 ára aldursbil, 5 ára aldursbil eða að auka framlagið til yngstu öryrkjanna ár fyrir ár. Það liggur í hlutarins eðli að þegar við reiknum í öllum atriðum með því sem hagstæðast er fyrir öryrkjann verður kostnaðurinn meiri. Það segir sig sjálft og almennt séð held ég að allir vildu gera það. En í þessum áfanga höfðum við rúman milljarð til skiptanna og ekki meira. Þar við situr að sinni.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að halda því fram að allt hafi verið klappað og klárt þegar starfshópurinn tók við sem átti að útfæra samkomulagið þann 6. maí. Útreikningar sem gerðir voru í febrúar og apríl hafa í þessu sambandi enga merkingu þar sem samkomulagið var óútfært af starfshópnum og hér mátti ekki gleyma því að samkomulagið átti að kosta rúman milljarð kr. Við töluðum um rúman milljarð vegna vitneskjunnar um að kostnaðarútreikningarnir eru í fyrsta lagi háðir forsendum sem menn gefa sér og í öðru lagi er kostnaðurinn háður upplýsingum um hvenær menn eru fyrst greindir öryrkjar. Á því hvílir reiknimerkið. Í þessu sambandi þarf ekki annað en vitna til þess sem Tryggingastofnun ríkisins vekur athygli á þegar hún er beðin að útfæra leið A, B eða D. Hvað segir Tryggingastofnun? Hverjir eru fyrirvararnir við útreikningana sem hv. þm. Helga Hjörvar og öðrum talsmönnum stjórnarandstöðunnar utan þings og innan, þeim sem hafa rætt um málið hér er fullkunnugt um? Tryggingastofnun segir orðrétt í flestum kostnaðarmötum sínum, með leyfi forseta:

,,Athuga ber að niðurstöðu þessa verður að skoða í því ljósi að gögn um aldur öryrkja við fyrsta 75% örorkumat eru enn ekki yfirfarin nema að litlum hluta og skapar það því ákveðna óvissu í kostnaðarútreikningi.``

Þetta er hinn almenni fyrirvari um kostnaðarútreikninginn frá Tryggingastofnun ríkisins. Gögn um aldur öryrkja við fyrsta 75% örorkumat eru aðeins yfirfarin að hluta og skapa því óvissu um kostnaðarútreikninginn.

Af hverju kjósa þeir sem vita mest og best að útreikningar samkomulagsins hvíla einmitt á aldursákvörðuninni að byggja málflutning sinn á því að hér sé um einfalt reikningsdæmi að ræða þrátt fyrir þessa yfirlýstu fyrirvara?

Virðulegi forseti. Ég endurtek að aldrei hefur hagur þess hóps öryrkja sem við vildum ná til sérstaklega verið bættur eins og nú er gert með þeim milljarði sem á að verja til þessarar réttarbótar. Ég ítreka að gefnu tilefni að samkomulagið sem gert var snerist um fimm punkta.

Í fyrsta lagi var handsalað að nú yrði stigið fyrsta skrefið til að viðurkenna þá sérstöðu sem einkennir aðstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Við það er staðið með frv.

Í öðru lagi var það handsalað að þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fái umtalsverða hækkun bóta sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyris. Við það er staðið samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu.

Í þriðja lagi var handsalað að þessi breyting kæmi til framkvæmda 1. janúar 2004. Við það verður væntanlega staðið ef þetta frv. verður samþykkt í þinginu sem ég vona svo sannarlega að verði áður en við ljúkum þinginu fyrir jól.

Í fjórða lagi var handsöluð sú mikla kerfisbreyting til framtíðar sem ég skýrði hér að framan. Við hana er staðið í þessu frv.

Í fimmta lagi var handsalað að breytingin skyldi kosta rúman milljarð kr. Við það er einnig staðið. Ég vísa því yfirlýsingum um að ég hafi svikið þetta samkomulag alfarið á bug. Ég er að tala um yfirlýsingar talsmanna þeirra félagasamtaka sem auglýst hafa núna undanfarið gegn mér og það gildir um stjórnarandstæðinga innan þings og utan sem hafa vænt mig um svik í þessu efni.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta frv., þetta samkomulag er sigur fyrir öryrkja. Það er risaskref í þeirra réttindabaráttu en þeirri réttindabaráttu lýkur auðvitað ekki með þessu skrefi. Hún heldur áfram og ég hef sagt það að ég vonist til þess að þegar stormurinn gengur yfir og menn fara að greina þetta mál í réttu samhengi, sjái menn hversu mikill sigur þetta er.