Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 13:32:21 (2906)

2003-12-06 13:32:21# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, HHj
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að það hefur verið ætlun mín hér að ræða efnislega um atriði þessa frv., gagnsemi þess og nauðsyn að ýmsu leyti, en eftir að hafa heyrt hina kindarlegu ræðu sem hæstv. heilbrrh. flutti hér við framlagningu málsins er algerlega óhjákvæmilegt að við förum bara aftur yfir samningsmálið við Öryrkjabandalagið. Ég ítreka að ég taldi að það hefði verið nóg að gert í því efni en ég skal alveg fara með hæstv. ráðherranum einu sinni enn í gegnum það.

Það var stórbrotið að fylgjast með hæstv. heilbr.- og trmrh. lýsa hinum gríðarlegu lífskjörum sem öryrkjar á Íslandi búa við í valdatíð Framsfl. og þeim miklu og almennu kjarabótum sem þeir hafa notið og hvernig smjörið drýpur þar af hverju strái, þökk sé Framsfl. En þau orð og þær ræður allar, eða eintal, dæma sig auðvitað algerlega sjálfar því almenningur í þessu landi þekkir það einhvers staðar í kringum sig, af fjölskyldu sinni eða vinum og kunningjum, hver kjör öryrkjum eru og hafa verið búin. Um það hafa verið gerðar ítarlegar fræðilegar rannsóknir, m.a. af Stefáni Ólafssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Hörpu Njálsdóttur og ýmsum öðrum fræðimönnum sem hafa varpað ágætu ljósi á þá þróun hin síðustu ár. Hversu svo sem reiknimeistararnir í heilbrrn. búa til hentug viðmiðunarár og prósentutölur fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. er það bara staðreynd málsins að Hæstiréttur Íslands hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að þau lífskjör sem hv. Framsfl. bjó öryrkjum stönguðust á við grundvallarmannréttindi, um það yrði að úrskurða og grípa til aðgerða svo að Mannréttindadómstóll Evrópu þyrfti ekki að hlutast til um að lágmarkslífskjör í landinu væru virt.

Nei, virðulegur forseti, það er ekki ástæða til að æsa sig mikið yfir þessum orðum ráðherrans og maður verður bara að hafa ákveðinn skilning á vandræðum hans eftir allan vandræðaganginn hér í aðdraganda.

Ég játa að ég átti síst af öllu von á því að heyra hæstv. heilbrrh. fara í föt Péturs Blöndals og halda hér ræður um gríðarlegar hækkanir og hin miklu lífskjör. Það vantaði bara ofurlaun öryrkjanna svo hann næði Pétri (Gripið fram í: Háttvirtum.) alveg fullkomlega. Og því síður átti ég von á því að hæstv. heilbrrh. færi í fötin hæstv. landbrh., Guðna Ágústssonar, og bæði hér menn um að fyrirgefa forustu Öryrkjabandalagsins framgöngu hennar í málinu. Og ég átti síst af öllu von á því að hæstv. heilbrrh. gerði formann Öryrkjabandalagsins að ómerkingi og brigslaði honum um að vera hér að ljúga um það samkomulag sem gert var í mars sl. Það var ekki hægt að skilja orð ráðherrans öðruvísi en svo að forusta Öryrkjabandalagsins væri hér með óheilindum og í einhverjum flokkspólitískum slag við ráðherrann sem væri að efna samkomulagið þvert gegn því sem Öryrkjabandalagið hefur lýst yfir. Í því efni geta bara ekki báðir verið að segja satt. Það er svo einfalt, annar hvor hefur á röngu að standa.

Og það er rétt að muna að það voru ekki hinar miklu prósentuhækkanir til öryrkja sem réðu ferð hjá Framsfl. í mars. Það voru prósentur Framsfl. því það var fyrst þegar flokkurinn var kominn niður í 8% í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga sem það sást færi til þess að fá inn einhverja fjármuni til að bæta kjör öryrkja. Framganga flokksins hafði fram að því verið með þeim hætti að í tvígang hefur þurft að reka þá upp í Hæstarétt til að ná fram sjálfsögðum réttarbótum fyrir öryrkja.

Virðulegur forseti. Allur málflutningur í þessu máli sýnist mér helgast nokkuð af því hvaða afstöðu menn hafa til öryrkja og til lífeyrisgreiðslna. Mér sýnist hún nokkurn veginn skiptast eftir því hvort menn líta svo á að lífeyristekjur öryrkja séu tekjur sem þeir hafa sem frjálsbornir menn í lýðfrjálsu landi á grundvelli borgaralegra réttinda sinna eða hvort menn líta svo á að hér sé um að ræða ölmusu handa þeim sem minna mega sín.

Hæstv. heilbrrh. sagði áðan: Öryrkjar gera ekki kjarasamninga. Hvernig er því þá háttað, hæstv. heilbrrh.? Það verður ekki skilið öðruvísi en svo að öryrkjar þiggi kjör sín af hæstv. heilbrrh. og þær fjárhæðir sem honum hentar að skammta hverju sinni, alveg óháð því um hvað samið var. Þessi grundvallarmunur á viðhorfi hefur auðvitað margoft áður komið fram. Hann kom margoft fram þegar fjallað var um tengingu örorkubóta við tekjur maka. Þá var í þeirri umræðu mjög tekist á um mannréttindi, um grundvallaratriði í stjórnarfari og um það hvort þeir sem verða öryrkjar eigi réttindi og geti gert kröfur. Það var álit stjórnarmeirihlutans að svo væri ekki, að menn ættu ekki sjálfstæðan rétt til lágmarksframfærslu og það þurfti Hæstarétt Íslands til að úrskurða um að þar hafði stjórnarmeirihlutinn á röngu að standa.

Sá samningur sem gerður var og handsalaður við heilbrrh. í Þjóðmenningarhúsinu 25. mars sl. var alveg skýr. Hann var um það að hér ætti þetta frv. að liggja fyrir, upp á hækkun upp á 20.600 kr. á mánuði fyrir þá sem verða öryrkjar 18 ára eða yngri og lækka síðan um 421 kr. fyrir hvert ár til 67 ára aldurs. Þessi túlkun kom fram í kvöldfréttum útvarpsins þann sama dag að afloknum blaðamannafundi hæstv. heilbrrh. og embættismanna ráðuneytisins með blaðamönnum útvarps og Morgunblaðsins og þessi skilningur og þessi útfærsla er birt í Morgunblaðinu daginn eftir og þar er m.a. þeim sem verður öryrki 56 ára tilgreint nákvæmlega hvaða bótafjárhæðar hann muni njóta þegar þetta ágæta frv. heilbrrh. muni koma fram.

Það er síðan sagt í fréttatilkynningunni að kostnaður við þetta verði rúmur milljarður. Það var ekki sagt í fréttatilkynningunni að mörkin á samkomulaginu væru að það mætti ekki fara yfir þúsund milljónir. Það var aldrei sagt neitt um það. Enda gilda efnisatriði samningsins. Og sá starfshópur sem hæstv. ráðherra fól að fara í málið og skila inn frv. lagði líka fram drög að frv. sem fólu það í sér að samningurinn yrði efndur að 2/3 nú um áramótin og 1/3 áramótin þar á eftir en það frv. fékk ekki náð hjá stjórnarmeirihlutanum.

Hæstv. heilbrrh. hefur ekki viljað sýna okkur tillögur síns eigin starfshóps í málinu. Og af hverju vill hæstv. heilbrrh. ekki sýna okkur þær? Af hverju ber heilbrrn. fyrir sig upplýsingalög og neitar okkur um tillögur starfshópsins að því lagafrumvarpi sem hér átti að vera til umfjöllunar? Nú, vegna þess að það er feimnismál, af því að starfshópurinn leggur auðvitað til að samningurinn verði uppfylltur, að vísu í tveimur áföngum.

Þegar skoðaðar eru heimildir liggur fyrir að áður en samningurinn var gerður í Þjóðmenningarhúsinu var komið kostnaðarmat frá Tryggingastofnun og sömuleiðis frá formanni Öryrkjabandalagsins, í báðum tilfellum upp á rúman milljarð, og mér þætti vænt um ef hæstv. heilbrrh. upplýsti okkur um það hvaða fjárhæð var á kostnaðarmati þeirrar útfærslu sem gerð var 17. mars sl., þ.e. 10 dögum fyrir samkomulagið. Þegar svo búið var að gera breytingar frá þeirri útfærslu og fram að handsalinu í Þjóðmenningarhúsinu urðu á henni nokkrar breytingar og heilbrrn. tilkynnti Tryggingastofnun 9. apríl um samkomulagið í þeirri breyttu mynd. Svo fer embættismaður heilbr.- og trmrn. bara yfir það lið fyrir lið hvernig þetta samkomulag sé og biður um að fá útreikningana á því hvað það kostar. Þeir útreikningar koma inn í ráðuneytið 11. apríl.

Ég fullyrði, virðulegur forseti, að hæstv. heilbrrh. var alveg ljóst að kostnaðurinn við þetta samkomulag væri vel rúmlega milljarður þó að ég ætli ekki að rengja hann um hitt, að hann hafi kannski ekki séð útreikningana sjálfa fyrr en í ágúst. Það er þá mikil handvömm hjá embættismönnum heilbrrn. ef þeir kalla sérstaklega eftir útreikningum vegna þess að það liggi á þeim fyrir fjárlagagerð og liggja svo með þá á skrifborðinu sínu í nærri hálft ár.

Nei, virðulegur forseti, það er engum blöðum um það að fletta um hvað samið var. Spurningin er bara hvernig menn líta á slíkt samkomulag. Það er alveg greinilegt hvernig hæstv. heilbrrh. og stjórnarmeirihlutinn líta á það. Þetta er ekki samningur við fólk um kjör þess sem efna ber og virða eftir efni samkomulagsins og greiða fyrir það sem það kostar. Nei, þetta er velgjörningur við þá sem minna mega sín. Og hvað maður skammtar í það er undir valdsmönnunum einum komið. Um það hefur samningsaðilinn ekkert að segja því hann er ekki virtur þess að eiga neinn samningsrétt, heldur á hann allt sitt undir ákvörðunum ráðamanna sem svo segja honum rétt fyrir kosningar að þeir ætli að hækka launin hans svo og svo mikið um alla framtíð, virðulegur forseti, hækka ævikjör hans svo og svo mikið um alla framtíð, bara ef þeir kjósi þá. Þegar menn svo sýna þeim traust, handsala við þá samkomulag, álykta til stuðnings þeim aftur og aftur, og eflaust margir úr röðum öryrkja og ættingja þeirra og aðstandenda, vina og kunningja, ljá þessum góðu mönnum lið sitt koma þeir hér í ræðustól Alþingis og segja: Nei, öryrkjar gera ekki kjarasamninga. Samkomulagið sem við handsöluðum í mars ber ekki að virða nema að þeirri fjárhæð sem við töldum að það mundi þá kosta en létum að vísu ógert að segja fólki frá fyrir kosningar að hefði nokkuð breyst.

[13:45]

Ég held að hæstv. heilbrrh. verði að svara ýmsum spurningum sem að þessu lúta. Ein er sú hvenær það kostnaðarmat var gert sem liggur til grundvallar því frv. sem hann hefur nú lagt fram. Hvaða dagsetning er á því kostnaðarmati frá Tryggingastofnun og getum við fengið að sjá það? Var eitthvert kostnaðarmat á einhverri annarri útfærslu gert frá því í byrjun apríl og fram í nóvember? Var kostnaðarmat á einhverri annarri útfærslu gert? Virðulegur forseti. Getum við fengið að sjá tillögur starfshóps hæstv. heilbrrh. að því frv. sem hér ætti að vera til umræðu? Eða á að leyna þingið tillögum þess starfshóps sem hér hefur verið deilt um? Og af hverju á þá að leyna þingið þeim tillögum? Og hæstv. heilbrrh.: Hvenær upplýstu þeir samstarfsmenn yðar í ríkisstjórn um það hver kostnaður við þennan samning yrði? Er það rétt að því hafi verið haldið leyndu fyrir samstarfsflokknum og samstarfsmönnum í ríkisstjórn þar til í lok nóvember? Og hvernig stendur þá á því, hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson, að þér gerðuð mönnum ekki grein fyrir þeirri erfiðu stöðu sem þér voruð í að hafa samið um ákveðin skýr atriði sem reynast kosta meira en ætlað var og að þér hefðuð ekki fjárveitingu fyrir því.

En fyrst og fremst þetta: Hvers vegna fáum við ekki það frv. sem hér ætti að vera til umfjöllunar, þ.e. tillögur starfshóps hæstv. heilbrrh. sem skipaður var á grundvelli samkomulagsins. Ef virða á samkomulagið, hljóta menn að þurfa að virða tillögur þess starfshóps sem skipaður var á grundvelli þess, og það hljóta þá að vera tillögur þess starfshóps sem hér liggja fyrir. Og ég treysti því að hv. heilbr.- og trn. fái tillögur starfshópsins til umfjöllunar sem og þau kostnaðarmöt og bréfaskipti sem verið hafa, því ég tel að þau muni leiða algerlega í ljós, rétt eins og bréf heilbrrn. frá 9. apríl gerir, að það var aðeins samið um eina og aðeins eina útfærslu. Það að kostnaðurinn reyndist vera meiri en ætlað var hefur hent fyrr í samningum við ýmsa hópa í samfélaginu um kaup og kjör en samningana á samt að efna. Og stjórnarmeirihlutinn á að láta hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson hafa fjárheimildir til að efna þetta samkomulag. Svo einfalt er það.