Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 13:50:38 (2908)

2003-12-06 13:50:38# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því ef hæstv. heilbrrh. ætlar að svara þeim spurningum sem ég hef hér fram sett síðar í umræðunni, því ég hef spurt þeirra áður án þess að fá við þeim svör. Það verður hins vegar ekkert fram hjá því horft að hæstv. heilbrrh. sagði hér bara ósköp einfaldlega orðrétt: Öryrkjar gera ekki kjarasamninga. Og ég er feginn því að hann dregur til baka þá yfirlýsingu og vill túlka meiningar sínar með öðrum hætti.

En þegar ég segi að hann rengi formann Öryrkjabandalagsins, þá er það auðvitað svo. Formaður Öryrkjabandalagsins hefur sagt það alveg skýrt að það hafi verið samið um þessa einu útfærslu og það beri að efna hana. Og ef hæstv. heilbrrh. játar það í þessu andsvari að hann hafi staðið óhönduglega að verki og honum hafi orðið á ýmis mistök í ferli málsins, m.a. við að ganga frá lausum endum, þá hlýt ég að spyrja: Hver á að borga fyrir þau mistök ráðherrans, ríkisstjórnin eða öryrkjarnir?