Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 13:58:38 (2914)

2003-12-06 13:58:38# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvernig gleðilegum atburði hefur verið snúið í andhverfu sína. Síðasta vor fögnuðu forustumenn öryrkja stórkostlegum árangri í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum lífeyrisþega, öryrkja. Þeir gerðu samkomulag við heilbrrh. sem staðfest var af ríkisstjórninni um að aðgreina lífeyri öryrkja og ellilífeyrisþega og leggja sérstaklega áherslu á að bæta lífeyri þeirra sem verða öryrkjar ungir. Og þetta tókst. Ráðherra og forustumenn öryrkja handsöluðu samkomulag sem aðilar voru sammála um að ætti að kosta einn milljarð kr. á ári, til viðbótar 2,8 milljörðum kr. sem fer í lífeyri til öryrkja gegnum almannatryggingakerfið. Þetta er stórkostlegur árangur, enda voru forustumenn öryrkja himinglaðir. Og það mátti ekki ráða af öðru en þeir væru nokkuð sáttir við þá upphæð sem rætt var um, einn milljarð króna.

Nú spyr ég hv. þm. Helga Hjörvar: Hvað hefur breyst? Hvers vegna er hann óánægður með að staðið er við samkomulag um að bæta kjör yngri öryrkja verulega, um að aðgreina örorkulífeyri frá ellilífeyri og að sá milljarður sem samið var um sé til skila kominn? Gerði Öryrkjabandalagið e.t.v. samkomulag um einn milljarð vitandi að vinnuplagg það sem var til umfjöllunar þá um útdeilingu milljarðsins kostaði meira? Hvernig voru útreikningar Öryrkjabandalagsins sjálfs? Fengu þeir annað út í sínum útreikningi en þann milljarð sem er á borðinu? Og ef svo var, hvers vegna gerðu þeir ekki athugasemdir við það? Það er nefnilega svo að þegar gerðir eru samningar þá er reiknað út hvað er til skiptanna. Og ábyrgir samningsaðilar gera athugasemdir ef eitthvað stemmir ekki þegar samkomulag er annars vegar. Og þetta bendir til þess að þar var samkomulagið um einn milljarð sem um var samið, fyrst og síðast. Útfærslan var síðari tíma verkefni.