Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:02:09 (2916)

2003-12-06 14:02:09# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega hef ég reynslu af því að gera kjarasamninga og í kjarasamningum er einmitt annað tveggja lagt til grundvallar, annaðhvort er samið um ákveðna upphæð og útfærslan kemur síðar, eða ákveðna útfærslu og upphæðin kemur síðar. Ég vona að hv. þm. Helgi Hjörvar sé að hlusta á mig. Í þessu tilviki var það upphæðin sem lá frammi og var lögð til grundvallar. Útfærsluna átti að vinna síðar til þess að hún passaði inn í þennan milljarð.

Ég segi það enn og aftur -- það er með ólíkindum hvernig hlutum er snúið við. Það sem var gleðilegur atburður í vor er orðinn þvílík hörmung. Það er algjörlega horft fram hjá því að árangur Öryrkjabandalagsins fyrir skjólstæðinga sína er með ólíkindum góður. Fyrir þremur árum, árið 2000, var grunnlífeyririnn sem þeir höfðu til skiptanna um 70.000. kr. Í dag eftir 1. janúar verður hann 128.000 kr. Til hamingju með það.