Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:34:16 (2920)

2003-12-06 14:34:16# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman gerir lítið úr þeim mikilvægu markmiðum sem ríkisstjórnin er að ná. Meginmarkmiðið með þessu frv. og það mikilvægasta er að með því er stigið fyrsta skrefið til viðurkenningar á margvíslegri sérstöðu ungs fólks sem verður öryrkjar. Til að ná þessu markmiði var ákveðið að verja til þessa málaflokks 1 milljarði kr. Við það er fullkomlega staðið.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Þuríði Backman hvort hún geti ekki verið sammála mér um að mikið hafi áunnist í þessum málaflokki sé litið til kjara þeirra sem urðu 75% öryrkjar 18 ára gamlir áður fyrr. Árið 2000 var 18 ára 75% öryrki með 72.855 kr. í bætur á mánuði. Ári síðar var hann kominn í 80.000 kr. Árið 2002 var þessi upphæð tæpar 90.000 kr. Í ár erum við að tala um 98.000 kr. og eftir 1. janúar, um leið og frv. verður að lögum, er upphæðin komin upp í 126.000 kr. úr 72.855 kr. Ég spyr hv. þm. Þuríði Backman: Hefur ekki mikið áunnist?