Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:42:06 (2924)

2003-12-06 14:42:06# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja beint út af þeim orðum sem hv. þm. Þuríður Backman endaði á áðan, þar sem hún talaði um kjör yngstu öryrkjanna. Ég vona að hv. þm. sé ekki að misskilja frv. sem hér liggur frammi fyrir þinginu. Hér er verið að tvöfalda grunnlífeyri yngstu öryrkjanna. Ef hv. þm. telur það ekki vera mikinn árangur í sjálfu sér þá er það hennar mat en við framsóknarmenn teljum að hér sé um mikinn árangur að ræða.

Ég vil nú fara aftur í tímann, svona 7--8 mánuði. Fyrir um 7--8 mánuðum voru kosningar og ég og hv. þm. Þuríður Backman hófum kosningabaráttu í Norðaust. ásamt hæstv. heilbr.- og trmrh. Jóni Kristjánssyni. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hún hafi einhvern tímann heyrt okkur framsóknarmenn tala um 1,5 milljarða kr. í þeirri kosningabaráttu. Það hefur mátt skilja af málflutningi hv. þingmanns að við hefðum þá lofað 1,5 milljörðum kr. Það er rangt ef hún ætlar áfram að halda því fram. Við lofuðum alla tíð 1.000 millj. kr. og tvöföldun á grunnlífeyri yngstu öryrkjanna. Ég held að við þurfum að fá þetta á hreint, hvort við framsóknarmenn höfum þar svikið gefin loforð í kosningabaráttunni.

Hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar er tíðrætt um kosningasvik og kosningabrellur. En staðreyndin er sú að við lofuðum alla tíð 1.000 millj. kr. til öryrkja og tvöföldun á grunnlífeyri yngstu öryrkjanna og við það verður staðið.