Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:54:16 (2929)

2003-12-06 14:54:16# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, GÓJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Guðjón Ólafur Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var nú allsérkennileg ræða hjá hv. þm.

Það liggur fyrir að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur á undanförnum árum hækkað mjög bætur til öryrkja. Þetta samkomulag og frv. sem við erum að ræða hér gerir það að verkum að þær bætur hækka enn frekar. Fyrir liggur að bætur einhleyps öryrkja sem metinn var 75% öryrki 18 ára gamall hafa hækkað frá árinu 2000, bara frá árinu 2000, um 74% þegar þetta samkomulag verður að fullu komið til framkvæmda. Hækkunin frá 2001 er 58% og hækkunin frá árinu í fyrra, miðað við bæturnar eins og þær verða á næsta ári, eru 41%. Getur hv. þm. verið óánægður með þessa þróun? (ÁRJ: Við hvaða bótaflokka er miðað?) 36% hækkun á grunnlífeyri. (ÁRJ: Bara grunn. Hann er nú bara brot ...) Það er verið að hækka grunnlífeyri örorkubóta, úr 2,8 milljörðum í 3,8 milljarða. Hvenær skyldu jafnaðarmenn á Íslandi hafa náð þvílíkum árangri í að bæta hag öryrkja? Hvenær skyldi það hafa verið? Ætli það hafi verið þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var heilbrigðisráðherra eða fyrrverandi formaður Alþfl., Sighvatur Björgvinsson? Var þá gósentíð öryrkjanna?

Staðreyndin er einfaldlega sú, hæstv. forseti, að hagur öryrkja hefur aldrei verið betri en einmitt nú í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl.