Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:12:46 (2934)

2003-12-06 15:12:46# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að það megi breyta ýmsu í velferðarkerfinu. En ég vil leyfa mér að minna hann á að hann er búinn að vera í stjórnarmeirihluta í þó nokkuð mörg ár. Er árangurinn ekki meiri af hans eigin verkum og hans ákvörðunum? Er þetta áfellisdómur yfir hans eigin verkum sem hann felldi í ræðu sinni?

Ég vil mótmæla því sérstaklega að Öryrkjabandalagið hugsi eingöngu um hálaunað fólk eða hátekjuöryrkja. Ég er ekki sammála því.

Hv. þm. Pétur Blöndal kvartar yfir því að svokallaðir hálaunaöryrkjar fái þessar aldurstengdu öryrkjabætur ef ég skil hann rétt. Hann vill að þeir fái þær ekki. En mér finnst ekki sanngjarnt að draga öryrkja út í umræðunni þegar rætt er um greiðslu úr lífeyrissjóðum, að þeir fái greiðslur úr lífeyrissjóði. En hvað með alla aðra? Hvað með okkur alþingismenn sem fáum háar greiðslur úr lífeyrissjóðnum og aðra hálaunamenn sem fá mjög háar greiðslur úr lífeyrissjóðnum? Við fáum t.d. ellistyrk þegar við verðum komnir á vissan aldur. En grunnlífeyrir skerðist ekki og það á jafnt við um öryrkja sem og þá sem eiga von á að fá háar greiðslur úr lífeyrissjóði. En það er ekki sanngjarnt að taka öryrkjana eina og sér og fjalla um þetta eins og hálaunaöryrkjar séu sérstakt vandamál í samfélaginu.