Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:16:17 (2936)

2003-12-06 15:16:17# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, DJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Dagný Jónsdóttir:

Frú forseti. Við ræðum núna frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ég tel að hér sé um að ræða stærsta framfaraskref í málefnum öryrkja og ég fagna því mjög.

Fram fóru viðræður hæstv. heilbr.- og trmrh. og forsvarsmanna Öryrkjabandalagsins og í þeim viðræðum lögðu forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands áherslu á sérstöðu þeirra sem yngstir verða öryrkjar og vildu bæta hag þeirra sérstaklega. Þær áherslur Öryrkjabandalagsins eru einmitt meginmarkmið frv. eða það að stíga fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Frú forseti. Ég tel rétt að fara örstutt í gegnum dæmi um greiðslur almannatrygginga til einhleyps öryrkja sem metinn var 75% öryrki 18 ára. Árið 2000 var heildarupphæðin tæplega 73 þús. kr. Fjórum árum síðar eða árið 2004, ef þetta frv. nær fram að ganga, verður þessi upphæð um 127 þús. kr. á mánuði. Þetta er hækkun upp á 74%. Þetta þykir mér ánægjuleg þróun og ég veit að sagan mun skilgreina þennan áfanga sem sigur.

Mig langar að nota tækifærið hér og ítreka þá fimm punkta sem samkomulag hæstv. heilbrrh. og Öryrkjabandalagsins snerist um.

Í fyrsta lagi var handsalað að nú yrði stigið fyrsta skrefið til að viðurkenna þá sérstöðu sem einkennir aðstæður þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Við það er staðið.

Í öðru lagi var handsalað að þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fái umtalsverða hækkun bóta sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyris. Við það er staðið samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu.

Í þriðja lagi var handsalað að þessi breyting kæmi til framkvæmda 1. janúar 2004. Við það verður staðið.

Í fjórða lagi var handsöluð sú mikilvæga kerfisbreyting til framtíðar sem fjallar um aldurstengingu örorkubóta. Við hana er staðið í þessu frv.

Í fimmta og síðasta lagi var handsalað að breytingin skyldi kosta rúman milljarð kr. Við það er staðið.

Frú forseti. Ég vil að lokum ítreka að hér er verið að stíga stórt skref í hagsmunabaráttu öryrkja. Hæstv. heilbrrh. hefur verið allur af vilja gerður til að koma til móts við málstað öryrkja. Réttindabarátta öryrkja heldur áfram, engum dettur annað í hug, og treysti ég engum betur en hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni til að leiða þá baráttu.