Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:35:54 (2938)

2003-12-06 15:35:54# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson flutt langa ræðu í miklum hneykslunartón þannig að það mætti ætla að hér væru stjórnarliðar að fara fram með einhverjum óskaplegum skepnuskap gagnvart þeim hópi fólks sem hann hefur verið að tala upp í eyrun á. Hver skyldi nú þessi mikli skepnuskapur vera sem hv. þm. er svo hneykslaður á að hann getur varla staðið hér í stólnum án þess að stökkva upp fyrir púltið, eins og hann stundum gerir þegar honum tekst vel til og liggur mikið á hjarta?

Skepnuskapurinn er sá að það er verið að bæta kjör þessa hóps um 1 milljarð kr., það er verið að færa fé til þessa hóps í auknum mæli úr ríkissjóði. Og við erum í öðrum verkum til þess að halda saman fjárlögum til þess að geta afgreitt þau með þeim hætti að efnahagslegum stöðugleika verði viðhaldið. Til að viðbótin verði varanlegur kaupmáttur erum við að skera niður á sumum sviðum. Við erum t.d. að skera niður í framkvæmdum til vegamála um 1.522 millj. kr., m.a. til þess að geta gert þetta mögulegt. Við erum að færa til peninga úr vegagerð til öryrkja, og hv. þm. sér það ekki.

Hann sér bara það sem hann vildi sjá. Hann sér ekki það góða sem er verið að gera, hann sér bara þá öfugu mynd sem hann býr til hér í ræðustólnum og bölsótast út af.

Ég vil segja, herra forseti, og minna hv. þingmann á að sá hópur sem mest hækkar við þessa breytingu er kominn með um 126 þús. kr. á mánuði þegar allt er saman talið. Sá hópur hefur hækkað á þeim tíma sem Framsfl. hefur farið með heilbr.- og trmrn., frá 1995, um 135%, þ.e. um 73 þús. kr. á mánuði.