Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:38:10 (2939)

2003-12-06 15:38:10# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ákveðinn tilkostnaður sem fylgir því að geta talist mannréttindasamfélag. Á Íslandi er sá tilkostnaður ekki nægjanlegur. Við verjum hugsanlega of miklu fé til ýmissa mála. Ég hef efasemdir um ýmsa þætti í utanríkismálum. Ég hef sjálfur ýmsar efasemdir um samgöngumál, hefði viljað fá peninga fremur inn í ýmsa aðra þætti. Og ofar öllu öðru vildi ég treysta og styrkja betur stöðu öryrkja á Íslandi og þeirra sem hafa minnsta peninga, ég tala nú ekki um atvinnulausa. Við höfum tekist hér á um í þingsölum hvernig eigi að búa að atvinnulausu fólki. Það er verið að skerða kjör þess fólks.

Ég hef sagt það áður, og ítrekað, að ég fagnaði samningnum sem gerður var við Öryrkjabandalag Íslands. Ég tel hann mikið framfaraskref. Ég gagnrýni hins vegar það að samningurinn komi ekki til framkvæmda að fullu, að orð standi ekki. Um það eru menn að deila. Menn eru ekki að bölsótast út í þessar milljónir sem koma inn í þennan málaflokk, menn fagna þeim. Menn vildu hafa þær fleiri.

Ég lagði til áðan að tekjuafgangurinn af ríkissjóði, sem mun að öllum líkindum verða 6.770 millj. kr., verði lækkaður um 528 millj. þannig að ríkisstjórnin standi við samninginn sem gerður var við Öryrkjabandalag Íslands. Um það standa þessar deilur.