Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:14:28 (2953)

2003-12-06 16:14:28# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega mikill útúrsnúningur en ég er að beina ákveðinni spurningu til hv. þm. Í fyrsta lagi það sem hann kallar gægjur, þegar venjulegt fólk opnar fyrir útvarp eða les blöð, flettir Morgunblaðinu. Það eru ekki meiri gægjur en svo. Þar kom fram að grunnlífeyrir ætti samkvæmt samningnum --- ekki fréttatilkynningu ráðuneyta heldur samningnum að hækka um þær krónur sem ég nefndi áðan. Það var líka greint frá því hver skerðingin ætti að vera. Hefur þingmaðurinn ekki kynnt sér þetta? Hefur hann ekki kynnt sér efni málsins áður en hann fer í ræðustól með þetta tal um gægjur?

Ég nefndi einnig að ég hefði átt viðræður við forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins eftir að frá þessu var greint eins og margir gerðu til þess að reyna að átta sig á því hvað þarna væri á ferðinni. En strax eftir að samningurinn var undirritaður frammi fyrir fjölmiðlum landsins í Þjóðmenningarhúsinu, var rækilega greint frá þessum forsendum í fjölmiðlum. Hefur þingmaðurinn virkilega ekki kynnt sér málið betur en þetta?