Beint millilandaflug frá Akureyri

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:47:41 (2980)

2003-12-10 10:47:41# 130. lþ. 46.3 fundur 396. mál: #A beint millilandaflug frá Akureyri# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til hv. fyrirspyrjanda og hæstv. samgrh. fyrir þetta mál. Það fer ekkert á milli mála að það flug sem hér um ræðir skiptir mjög miklu máli, sérstaklega fyrir Eyjafjarðarsvæðið en var auðvitað kærkomin viðbót fyrir ferðaþjónustuna í landinu í heild. Framboð á sætum til og frá landinu hefur aukist gríðarlega mikið á undanförnum árum. Ég vakti athygli á því á ferðamálaráðstefnu sem var haldin í Mývatnssveit í haust að þessi aukning hefur valdið því að líklega og örugglega hefur aldrei verið jafnmikið sætaframboð í millilandaflugi hér á landi og stefnir í að sé á þessu ári og verði á því næsta. Ferðamálaráð og samgrn. hafa veitt stuðning við markaðsátakið, sérstaklega vegna flugsins á Egilsstaði en einnig var veittur stuðningur við markaðsátak sem markaðsskrifstofan á Norðurlandi efndi til. Hluti af því var auðvitað það prógramm sem menn sáu fyrir sér að gæti gerst í kringum þetta flug til Akureyrar. Þess vegna eru það auðvitað mikil vonbrigði að þeir sem stóðu fyrir þessu flugi, eigendur Grænlandsflugs, treystu sér ekki til að halda því áfram.