Beint millilandaflug frá Akureyri

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:52:42 (2983)

2003-12-10 10:52:42# 130. lþ. 46.3 fundur 396. mál: #A beint millilandaflug frá Akureyri# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu get ég ekki svarað fyrir flugfélögin sem þjóna landinu en þetta er gagnleg umræða og ég er feginn að heyra að hv. þm. átta sig á því að ríkisstyrkir til millilandaflugs eru ekki á dagskrá og ekki framkvæmanlegir.

Það liggur fyrir að öll landkynning, jafnöflug og hún hefur verið síðustu missirin, nýtist í öllum flutningaleiðum til og frá landinu. Almenn landkynning nýtist Norrænu vegna siglinga til og frá landinu og almenn öflug landkynning nýtist öllum flugfélögunum. Þau eru nokkuð mörg, það eru ein sex eða sjö flugfélög sem fljúga hingað til landsins með erlenda ferðamenn yfir háönnina. Mikilvægast fyrir okkur er að hin almenna landkynning sé öflug og góð því að mikill hluti af viðskiptum við flugfélögin í dag fer fram á netinu. Fólk pantar með mjög skömmum fyrirvara og velur sér hagstæðustu kostina í flugi. Flugfélag sem vill fljúga til Akureyrar á að geta nýtt sér þetta.

Ég vara hins vegar mjög eindregið við því að sveitarfélög eða einhverjir aðrir aðilar, áhugasamir um eflingu ferðaþjónustu á tilteknum landshlutum, taki að sér fyrir fram að greiða halla af flutningum til landsins. Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Við Íslendingar búum við betri samgöngur í flugi en margar aðrar þjóðir og 300 þús. íbúar hér hafa alveg feiknarlega góðar flugsamgöngur til og frá landinu. Ég held að það verði að líta til þess. En ég fagna aukningu í flutningum og vona svo sannarlega að Akureyringum takist að sannfæra menn um að fljúga milli Kaupmannahafnar og Akureyrar ef það eru rekstrarlegar forsendur.