Endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:55:27 (2984)

2003-12-10 10:55:27# 130. lþ. 46.2 fundur 262. mál: #A endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir um það bil tveimur árum hófst í Kópavogi starfsemi endurhæfingardeildar fyrir krabbameinssjúklinga. Þar er um að ræða göngudeild. Má reyndar segja að að hluta til sé þar rekin dagdeildarstarfsemi þar sem margir sjúklingar dvelja nokkra klukkutíma á deildinni dag hvern. Landspítali -- háskólasjúkrahús stendur að göngudeildinni en þar starfa iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar og aðstoðarfólk þeirra auk þess sem annað fagfólk kemur frá spítalanum eftir þörfum, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, næringarráðgjafar o.fl. Þeir einstaklingar sem koma á göngudeildina eiga það flestir sameiginlegt að þurfa líkamlegan, andlegan og félagslegan stuðning eftir erfiða lyfjameðferð, atvinnumissi og því miður er stundum um félagslega einangrun að ræða sem fylgir því að fá erfiðan, langvinnan sjúkdóm þar sem þrekleysi, bólgur, verkir, hreyfiskerðing og útlitsbreyting, hármissir og sterabólgur eru fylgikvillar og í einstaka tilvikum fylgir einnig breyting á persónuleika viðkomandi sjúklings.

Göngudeild fyrir krabbameinssjúklinga sem staðsett er í fallegu umhverfi í Kópavogi hefur fyrir löngu sannað tilverurétt sinn. Þarna er unnið merkilegt brautryðjendastarf, sjúkraþjálfun og markviss iðjuþjálfun ásamt því að mynda félagsleg tengsl milli sjúklinga sem eru að fást við sambærileg vandamál, fylgikvilla og afleiðingar sjúkdóms. Ekki síst hefur þeim tekist vel að byggja upp brotna einstaklinga og hjálpa þeim við að takast á við lífið í breyttu umhverfi. Þarna er aldeilis frábært starfsfólk en staðsetning endurhæfingardeildarinnar á einnig þátt í því hversu vel hefur til tekist með þessa sérhæfðu en þó fjölþættu starfsemi. Útivera og göngur, ræktun og hvaðeina sem fallegt umhverfi býður upp á er liður í því að byggja sjúklingana upp að nýju ásamt því heimilislega umhverfi sem starfsfólkinu hefur tekist að skapa innan dyra.

Í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Þuríði Backman á síðasta þingi sagði hæstv. ráðherra að ekki hefði verið tekin endanleg ákvörðun um staðsetningu endurhæfingardeildarinnar og eftir því sem ég best veit ríkir þar enn óvissa. Ég er sannfærð um að starfseminni verður ekki fundinn betri staður og hagsmunum krabbameinssjúklinga er borgið í þessu starfsumhverfi með svo frábæru starfsfólki. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir eflingu endurhæfingardeildar krabbameinssjúklinga í Kópavogi og ef svo er, á hvern hátt?

2. Verður áframhaldandi starfsemi tryggð á þeim stað sem hún er, þ.e. í Kópavogi?