Endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:07:42 (2990)

2003-12-10 11:07:42# 130. lþ. 46.2 fundur 262. mál: #A endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:07]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Hún er jákvæð og málefnaleg um þetta mikilvæga málefni.

Ég vil taka það fram að sjálfsagt er að skoða kynningarmálin eða koma því til skila að sjúklingar, þeir sem glíma við þennan erfiða sjúkdóm, fái upplýsingar um þau úrræði sem þeir hafa til endurhæfingar.

Ég endurtek það sem ég sagði að ekki stendur til núna að flytja þessa starfsemi annað. Hún er góð þar sem hún er í Kópavogi. Hins vegar, eins og kom fram í svari mínu, er ekkert hægt að útiloka um alla framtíð að það kunni ekki að verða einhverjar breytingar vegna þess að við komum vonandi að því einhvern tíma að byggja upp Landspítalann. Núna er starfandi nefnd sem er að semja við Reykjavíkurborg um skipulag á landspítalalóðinni. Sú vinna er nokkuð langt komin. En í framhaldi af því þurfa menn að vinna áfram að framtíðaruppbyggingu Landspítala -- háskólasjúkrahúss og marka þar stefnu til enn lengri tíma.

Ég endurtek að engar breytingar eru fram undan núna á þessari starfsemi eða staðsetningu hennar. Ég undirstrika það sem ég sagði í svari mínu um mikilvægi hennar. Ég tel það vera mjög mikið.