Viðvera forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:10:05 (2991)

2003-12-10 11:10:05# 130. lþ. 46.93 fundur 228#B viðvera forsætisráðherra# (um fundarstjórn), HHj
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:10]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp um fundarstjórn forseta vegna þess að til fundar var boðað á Alþingi Íslendinga kl. 10.30 í morgun. Fyrsta mál á dagskrá var fyrirspurn mín til hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar sem taka átti fyrir nú fyrir hádegi, en ég hygg að þetta sé síðasti fyrirspurnadagurinn fyrir jól á Alþingi.

Virðulegur forseti. Nú eru liðnar 40 mínútur eða um það bil ein kennslustund í grunnskóla og hæstv. forsrh. hefur enn ekki látið sjá sig. Hvað veldur óstundvísi forsrh. eða virðingarleysi hans fyrir tíma annarra og tíma löggjafarþingsins er mér ekki alveg ljóst. Fyrst var ég upplýstur um að fyrirspurnin yrði tekin fyrir sem mál nr. 2 á dagskránni. En það var ekki gert og nú hafa þegar verið rædd tvö mál á dagskránni. Það verður fundarhlé hygg ég kl. hálftólf og dagskrá ákveðin um önnur mál frá kl. hálftvö.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki í hyggju að láta bjóða mér það að hæstv. forsrh. þegi af sér fyrirspurnina með því að sýna þá óvirðingu og þann almenna skort á mannasiðum að mæta ekki þegar honum ber að mæta.

Virðulegur forseti. Ég óska eftir því að náð verði í hæstv. forsrh. núna vegna þess að samkvæmt dagskrá fundarins á hann að vera hér til andsvara vegna fyrirspurnar frá mér og ég hef í hyggju að flytja þá fyrirspurn núna, virðulegur forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti vill upplýsa að gert er ráð fyrir því að forsrh. komi til fundarins eftir nokkrar mínútur samkvæmt nýjustu upplýsingum sem forseta hafa borist. Verður þingmaðurinn að una við það að forseti taki tillit til þess að aðstæður hæstv. forsrh. hafa valdið því að hann gat ekki verið hér á þeim tíma sem gert var ráð fyrir enda er algengt að hnikað sé til dagskrá þegar sérstakar aðstæður krefjast.)

Sá þingmaður sem hér stendur skal gjarnan unna forseta þess ef virðulegur forseti vill þá upplýsa þann þingmann sem hér stendur um hvaða lögmætu forföll valda þeirri óstundvísi sem hér um ræðir.

(Forseti (BÁ): Ég get ekki upplýst um það. En eins og ég segi þá hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fá forsrh. á staðinn og samkvæmt upplýsingum sem forseta bárust er hann væntanlegur upp úr korter yfir ellefu og verður þingmaðurinn að una við það.)

Virðulegur forseti. Ég óska þá eftir því að gert verði fundarhlé í þessar nokkru mínútur.

(Forseti (BÁ): Það verður ekki orðið við þeirri beiðni.)