Fjárflutningar

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:16:51 (2993)

2003-12-10 11:16:51# 130. lþ. 46.4 fundur 415. mál: #A fjárflutningar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi segja að það er enginn áhugi í sjálfu sér hjá þeim sem hér stendur eða ríkisstjórn að fækka sláturhúsum. Við stöndum að vísu frammi fyrir því að Evróputilskipun um hvernig sláturhúsin skuli vera gengur hér í gildi 2008.

Hins vegar eru sláturhúsin alfarið á höndum bændanna og þeir fara með þau. Sláturhúsin hafa verið í miklum vandræðum, ekki síst af því að mörg þeirra hafa farið illa út úr rekstri og orðið gjaldþrota og bændurnir hafa ekki fengið afurðir sínar greiddar. Niðurstaða þeirra er að þau séu of mörg og of illa stödd. Þess vegna var þessi peningur án nokkurra skilyrða lagður til hagræðingar, ekki síst til að bændurnir fengju öruggari greiðslur og að sláturkostnaður, sem hér er hærri en gerist og gengur, lækkaði. Sá var tilgangurinn.

Hvað fyrstu spurningarnar tvær varðar, um styrki sem Byggðastofnun veitir og um hverjir fái þá styrki, vil ég hér segja að það er alfarið mál Byggðastofnunar. Hún fer með það mál sjálf og ég get þess vegna ekki svarað því öðruvísi en að það er á hennar valdi.

Hversu mörg lömb drápust á leið til sláturhúsa í sláturtíðinni frá 2000 til 2003 --- um það eru ekki til neinar tiltækar tölur. Ég lét mína menn hafa samband við nokkur sláturhús og dýralækna sem fylgjast mjög með þessu og þeir segja ekki algengt að það sé mikið um dauða. Alltaf drepast einhver lömb af einhverjum ástæðum. Ég man frá því þegar ég var drengur að stundum köfnuðu lömb á leið til sláturhúsa. Þetta var vond dýrameðferð og tek ég undir það með hv. þingmanni en nú er ekki troðið á bílana eins og áður fyrr. Ég get hér sagt að þetta er atriði sem auðvitað þarf að skrá og fara betur yfir og það verður gert, haldið utan um þessar tölur. Ég er hins vegar sannfærður um að með þessum miklu flutningum og stóru bílum hafi orðið nokkru stærri slys en við þekktum áður þegar bílar ultu í þessum fjárflutningum. Það hefur gerst, kannski einn bíll á hausti. Það er alvarlegur hlutur og alltaf ömurlegt þegar slíkt gerist. Því miður eru ekki til staðar tölur um hvað mörg lömb hafa drepist. Þó hafa dýralæknar fylgst nokkuð með því og einn og einn er farinn að skrá það niður. Ég tek undir að ég held að það sé eðlilegt verkefni næstu ára að skylda hlutaðeigendur til að skrá dauðsföllin niður þannig að tölurnar séu tiltækar og hægt að fylgjast með þróun í þeim efnum.

Þurfa þeir sem flytja sláturfé landshorna á milli að afla sér sláturleyfis?

Í 4. gr. laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, nr. 73/2001, er ákveðið að almennt rekstrarleyfi Vegagerðarinnar þurfi til að stunda fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga í atvinnuskyni. Vegagerðinni er heimilt, á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur, að gera mismunandi kröfur til útgáfu mismunandi leyfa eftir því sem eðli starfseminnar gefur tilefni til. Ekkert leyfi þarf til flutninga í eigin þágu.

Eru fjárflutningavagnar skoðaðir og ákveðinn hámarksfjöldi dýra sem flytja má?

Á skoðunarstöðvum fer fram almenn skoðun á fjárflutningavögnum líkt og öðrum flutninga- og ökutækjum í reglugerð um meðferð búfjár við rekstur og flutning með vögnum, skipum og flugvélum. Einnig er það samkvæmt reglugerðum, þar eru ákvæði um útbúnað fjárflutningabíla. Í reglugerðinni eru ekki skýr ákvæði um fjölda sláturfjár sem flytja má samtímis með sama flutningatæki. Reglugerð þessi er nú í endurskoðun hjá umhvrn. með reglugerð um eftirlit því að umhvrh. fer með dýraverndina, eins og hv. þm. þekkir. Í reglugerð um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra eru í viðauka C ákvæði um stíurýmið við flutninga á landi þannig að ákveðnar reglur gilda.

Hve margar úttektir voru gerðar á fjárflutningavögnum?

Ekki eru fyrir hendi upplýsingar um fjölda úttekta og fjölda athugasemda en dýralæknar og sláturhússtjórar fylgjast mjög vel með þessum vögnum og skoða jafnvel vagnana daglega þegar þeir koma með fé, að því er sláturhúsamenn segja mér.

Eru gerðar kröfur um að brynna sauðfé sem tekur lengur en átta tíma að flytja til slátrunar?

Í 6. gr. reglugerðar um meðferð búfjár við rekstur og flutning með vögnum, skipum og flugvélum er kveðið á um að taki flutningur lengri tíma en tólf klukkustundir skuli sjá dýrum fyrir nægu fóðri og vatni til drykkjar. Það er þó engin leið hér sem er farin svo löng en fé er brynnt í sláturhúsi.

Hvernig er háttað eftirliti með flutningi sláturfjár að öðru leyti? (Forseti. hringir.)

Héraðsdýralæknar --- hæstv. forseti, ég er að ljúka máli mínu --- og aðrir dýralæknar líta eftir ástandi sauðfjár og gera athugasemdir ef tilefni er til. Á vegum yfirkjötmats er nú unnið að athugun á streitu hjá sláturfé, m.a. af völdum flutnings og áhrifa hennar á kjötgæði, ekki síst vegna þess sem hv. þm. minntist á, að flutningar eru orðnir lengri en áður var.