Verklag við fjárlagagerð

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:37:50 (3000)

2003-12-10 11:37:50# 130. lþ. 46.1 fundur 325. mál: #A verklag við fjárlagagerð# fsp. (til munnl.) frá forsrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Mörður Árnason:

Forseti. Hæstv. forsrh. svaraði ekki fyrirspurn hv. þingmanns. Hann tók ekki fram á grundvelli hvaða lagaheimilda tilmæli ráðuneytisins til Alþingis, m.a. um þess eigin stofnanir, byggðust. Hæstv. forsrh. virðist ekki skilja þá þrískiptingu sem hann telur aðra misskilja. Hann skilur það ekki að hlutverk framkvæmdarvaldsins við fjárlagagerðina er að leggja fram frv. Þegar það frv. er síðan komið til löggjafarvaldsins og fjárveitingavaldsins er hlutverk þess að þvælast ekki fyrir því sem gert er á þess vegum og það verður að segja hæstv. forsrh. að vissulega er það stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem ræður við frumvarpsgerðina en ekki við fjárlagagerðina sjálfa. Þar er það Alþingi sem samkvæmt íslensku stjórnarskránni og hugmyndum annarra um þrískiptingu valdsins allt aftur á 18. öld og raunar aftur til Markúsar Túllíusar Cícerós á að ráða því.