Verklag við fjárlagagerð

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:40:34 (3002)

2003-12-10 11:40:34# 130. lþ. 46.1 fundur 325. mál: #A verklag við fjárlagagerð# fsp. (til munnl.) frá forsrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi orðaskipti hafa verið afar athyglisverð. Á liðnum árum höfum við þingmenn haft miklar áhyggjur af því hvað skilin á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins eru að verða óskýr og þau hafa orðið óskýrari eftir því sem þessi ríkisstjórn hefur setið lengur.

Hæstv. forsrh. er klókur maður og mjög skýr og hann veit yfirleitt hvað hann er að segja. Þegar ég sit í þessum sal og hlusta á svörin hans til hv. þingmanns vaknar hjá mér spurningin hvort það sé virkilega rétt að hæstv. forsrh. finnist eðlilegt að framkvæmdarvaldið ráði yfir Alþingi eftir að frv. er komið inn, í lagasetningu um fjárlög og stýri því hvað af fjárlögunum renni til Alþingis og stofnana þess.