Verklag við fjárlagagerð

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:41:55 (3003)

2003-12-10 11:41:55# 130. lþ. 46.1 fundur 325. mál: #A verklag við fjárlagagerð# fsp. (til munnl.) frá forsrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það verður æ erfiðara að skilja þessa umræðu. Ég hef eins og margir aðrir fylgst með dagskrá fjárln. vegna þess að hún er birt á netinu og þótt ég sitji ekki í nefndinni hef ég séð að fjárln. hefur verið önnum kafin í allt haust. Og hvað hefur hún verið að gera meira og minna alla þessa daga? Hún hefur verið að taka á móti gestum, hún hefur verið að taka á móti fulltrúum; fulltrúum stofnana, fulltrúum ráðuneyta og fulltrúum fleiri aðila. Sjálfur sit ég í tveimur nefndum. Fyrir þessar nefndir hafa komið fulltrúar m.a. ráðuneytanna, fulltrúar stofnananna til þess að ræða málin. Samt tala menn eins og það sé búið að taka öll völd af þessum stofnunum og koma í veg fyrir að þær fái að ræða við Alþingi. Það er ekki þannig.

Eins og hæstv. forsrh. vakti réttilega athygli á áðan getur fjárln. auðvitað haft frumkvæði að því að kalla til þær stofnanir sem hún vill og mér sýnast menn hafa gert það alveg eins og þeir hafa gert undanfarin ár. Ég skil ekki tilefni þessarar umræðu. Þetta er óskiljanlegt.