Verklag við fjárlagagerð

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:45:04 (3006)

2003-12-10 11:45:04# 130. lþ. 46.1 fundur 325. mál: #A verklag við fjárlagagerð# fsp. (til munnl.) frá forsrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:45]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að fjárln. hefur verið upptekin við að taka á móti ýmsum aðilum, aðallega fulltrúum sveitarstjórna og frjálsra félagasamtaka og þeim sem ekki hafa fengið bréf frá hæstv. ríkisstjórn.

Það sem okkur þótti óskiljanlegt var hve fáir komu frá stofnunum og þá fórum við að leita eftir skýringunni og komumst að þessu. Við kölluðum þessar stofnanir til okkar og það var full þörf á því, hv. þm., að heyra í forsvarsmönnum þeirra og hvað þeir höfðu lagt fram í fjárlagabeiðnum og hvernig þeim leist á þær tillögur sem komið höfðu frá fagráðuneytum.

En vegna þess að hæstv. forsrh. var hér að sneypa þingmenn, að þeir vissu ekki um hvað málin snerust, og það getur verið ósköp eðlilegt að nýir þingmenn viti það ekki, þá vil ég biðja hæstv. forsrh. að segja mér þannig að ég hafi það bara á hreinu: Hvar liggur fjárveitingavaldið? Hvar liggur það?