Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 13:42:01 (3015)

2003-12-10 13:42:01# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hæstv. sjútvrh. heldur uppburðarlítill þegar hann flutti þetta erindi sitt og minnti mig dálítið á Vilhjálm Egilsson, fyrrverandi þingmann, sem muldraði svona ofan í barm sér þegar hann vildi koma málum hratt og örugglega í gegn. En erindi mitt, virðulegi forseti, var ekki að rifja það upp heldur kannski fyrst og fremst að meginatriði þessa frv. er að leggja til að tekin verði upp línuívilnun fyrir dagróðrabáta, enda sé lína beitt í landi. Niðurstaðan af þessu er fyrst og fremst sú að aflaheimildir færast til ákveðinna landsvæða, í þessu tilviki Vestfjarða, og til tiltekinna báta. Því vil ég beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh.: Er hagkvæmara að gera út af þessu landsvæði en annars staðar og eru þau skip sem færa á aflaheimildir til betur til þess fallin en önnur skip að veiða við Íslandsstrendur?

Ástæðan fyrir því að ég ber þessa spurningu upp er fyrst og fremst sú að það kemur ekkert fram í greinargerð með frv. hver tilgangurinn er eða hvaða röksemdafærsla býr að baki. Það kemur aðeins fram að þetta skuli gert.