Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 13:44:27 (3017)

2003-12-10 13:44:27# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég get ekki bent á neinn sérstakan þingmann sem gæti bjargað hæstv. sjútvrh. frá þessu tiltekna máli. En aðeins um það sem hæstv. ráðherra sagði, ég held að veruleikinn í þessu máli sé fyrst og fremst sá að ríkisstjórnin hefur ekki lengur tök á þeim þingmeirihluta sem styður hana. Hún þoldi ekki þá pressu sem upp kom vegna umræðu um línuívilnun og þess vegna varð hún að fylgja því sem nokkrir hv. þm. kröfðust, þ.e. að færa aflaheimildir til Vestfjarða. Það segir kannski meira um stöðu ríkisstjórnarinnar en nokkuð annað. Það að reyna að hengja þetta á að það eigi að bjarga einhverjum byggðarlögum með þessu er vitaskuld fásinna því að þetta kemur aðeins nokkrum byggðarlögum til góða.

Virðulegi forseti. Veruleikinn er sá að ríkisstjórnin hefur veikst verulega og tilteknir þingmenn hafa haldið henni í gíslingu. Þess vegna kemur hæstv. ráðherra hér upp og neyðist til að leggja þetta fram, reyndar þvert gegn vilja sínum, tel ég. En hæstv. sjútvrh. munar ekki mikið um að mæta með frv. þrátt fyrir það.