Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 13:46:12 (3019)

2003-12-10 13:46:12# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér trúverðugleika bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórnar í fiskveiðistjórnarmálum. Í kosningabaráttunni lofaði Sjálfstfl. línuívilnun án þess að það kæmi niður á byggðakvótum eða neinu slíku eins og Guðmundur Halldórsson sem fékk þessa tillögu samþykkta á flokksþingi sjálfstæðismanna hefur lýst. Framsfl. lofaði aukningu í byggðakvóta og í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að auka byggðakvóta og taka upp línuívilnun.

Í þessu frv. er verið að skera niður byggðakvótana enda hafa þeir verið fleinn í holdi Landssambands íslenskra útvegsmanna og annarra stórútgerða. Það er farið eftir óskum þeirra hvað það varðar. Síðan er tekin upp svona sýndarlínuívilnun sem er ákveðið form af beitningu þannig að einn bátur getur verið á línuívilnun þennan mánuðinn en á öðruvísi aflaheimildum hinn mánuðinn.