Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 13:54:27 (3027)

2003-12-10 13:54:27# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. er mættur með línuívilnunina sína. Það leit nú ekki þannig út í sumar og haust að hann ætlaði sér það. En hann virðist hafa afturábakgíra eins og hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni því að þeir eru meira og minna í afturábakgírunum þessa dagana. Hæstv. heilbrrh. ruglaðist nú á gírunum í töluverðan tíma um daginn og endaði svo í aftur á bak og braut öxulinn. Fjmrh. virðist ólmur ætla að blanda sér í leikinn. Hann er kominn með sjómannaafsláttinn og það að breyta ráðningarkjörum starfsmanna ríkisins. Ég spái því að hann eigi eftir að fara í afturábakgírana líka. Það verður tignarlegt að sjá tilþrifin hjá honum. En félmrh. bókstaflega reykspólaði í aftur á bak núna í gær og í morgun. (Gripið fram í.) Og kannski verður meira.

Hvaða sýning er þetta eiginlega hjá ríkisstjórninni og ráðherrunum? Það virðist vera orðinn plagsiður að menn æði hér inn á völlinn með einhver mál og bakki svo á fullri ferð frá þeim aftur. Er þetta eitthvað til að hafa gaman af? Mér þykir ekki neitt gaman að þessu. En það getur vel verið að Spaugstofan finni eitthvað út úr því í framhaldinu hvað sé hægt að gera úr þessu öllu saman. Er þetta kannski tilraunverkefni hjá ríkisstjórninni, einhvers konar þrautakóngskeppni eða hvað það nú heitir í dag, hverjir komast af? Mér finnst einhvern veginn að þetta sé orðið of mikið til þess að þetta geti verið tilviljun. Menn hafa greinilega hengt hverjir á aðra einhverja poka sem allir verða að hlaupa með og það fer nú svona.

Það væri auðvitað vert að ræða meira um þetta. En það er annað hér á dagskrá. Það er þessi línuívilnun. Það var mikil umræða um sjávarútvegsmálin fyrir kosningarnar í vor. Það þarf kannski ekki að rifja það upp í þessum sal hvers vegna stjórnarflokkarnir lofuðu línuívilnun. Kjósendur voru óánægð\-ir með sjávarútvegsstefnuna. Þeir voru óánægðir með afleiðingar hennar, afleiðingar af eignarhaldinu á kvótanum eins og það kemur niður í byggðum landsins. Ýmsir stuðningsmenn stjórnarflokkanna ætluðu hugsanlega jafnvel að kjósa einhverja aðra flokka, létu það í veðri vaka a.m.k. og þess vegna varð að gera eitthvað. Meira um það á eftir.

Eignarhaldið á kvótanum er stærsta samkeppnishindrun sögunnar í þessu landi og það virkar eins og 400--500 milljarða eigið fé inn í útgerðarfyrirtækin gagnvart þeim sem eiga í samkeppni við þau fyrirtæki sem eru í útgerð. Þeir sem hugsanlega vilja inn í útgerð þurfa að glíma við þennan vanda sem ríkið hefur lagt á eins og gert hefur verið. Milljarðar streymdu í vasa þeirra sem voru á staðnum þegar úthlutunin fór fram og þeir hafa getað hlaupið í burtu með þessa milljarða. Þeir hafa gert það sumir en margir geta það enn og munu gera það ef engu verður breytt. Það finnst hæstv. forsrh. allt í fína lagi. Hann liggur ekki andvaka yfir því lesandi Passíusálmana eða ritningargreinar þó að hann beri auðvitað ábyrgð á því mest allra manna ásamt Halldóri Ásgrímssyni að þetta eignarhaldskerfi er við líði og hefur verið varið af þessari ríkisstjórn og þeim félögum með kjafti og klóm þó að þjóðin hafi áttað sig á því hvar fiskur liggur undir steini og hverjar afleiðingar af þessari einkavæðingu þjóðarauðlindarinnar eru.

Þær eru m.a. að engin nýliðun er í útgerð á Íslandi. Það þýðir einfaldlega að engin framtíð er fyrir byggðarlögin í landinu. Það er engin framtíð í byggðarlagi sem byggir á fyrirkomulagi þar sem engin nýliðun getur komið til.

Þetta skilur fólkið í sjávarbyggðunum. Þess vegna voru menn í vandræðum með kjósendurna í vor. Fólk er farið að skilja þetta núna. Um tíma rugluðust menn dálítið í ríminu út af því að haft var gat á kerfinu. Það var svona verið að smokra smábátamönnum inn í kerfið. Nýliðunin fór þar fram. Það var ekki í samræmi við aðalreglurnar í kerfinu. Nei, það var gert til þess að ekki yrði auðn í sjávarbyggðunum, svo að menn fengju ekki að sjá framan í kerfið og hvernig það virkaði nákvæmlega.

En nú stefnir allt í það menn fái að sjá það. Það er verið að skella í lás hvað alla nýliðun varðar í þessari grein. Þetta sló ryki í augu fólks um tíma en núna eru fleiri farnir að skilja þetta eins og ég sagði áðan. Já, það vantaði stuðning. Fólkið ætlaði ekki að kjósa stjórnarflokkana í sama mæli og áður.

[14:00]

Hvað gerðu menn þá? Jú, menn fundu þrjú snjallræði. Það fyrsta var línuívilnun strax í haust. Og menn gengu um og útlistuðu fyrir fólki hvernig þetta mundi bjarga byggðarlögunum og alveg sérstaklega fyrir vestan, það urðu margir varir við það. Annað var forkaupsréttur sveitarfélaga á veiðiheimildum. Það var kannski ekki talað jafnmikið um það og ég sé ekki að neitt sé minnst á þennan forkaupsrétt í frv. hæstv. ráðherra. Og það væri gaman að því að hann færi yfir það á eftir hvort sú stefnumörkun sé bara í vinnslu og komi síðar fram, eða hvort ekki hafi verið nógur þrýstingur á að stjórnarflokkarnir stæðu við það kosningaloforð að setja forkaupsrétt sveitarfélaganna í eitthvað betra form en hann er í dag. Auðvitað vissu ríkisstjórnarflokkarnir að það yrði þras um línuívilnunina en það þurfti að vinna kosningar og það mátti ekki spara neitt til þess, það var allt í voða. Og þá ákvað forsætisráðherrann að koma með þriðja snjallræðið sem voru 30 þúsund tonn í soðið handa LÍÚ. Og ég segi LÍÚ vegna þess hvernig þeim 30 þúsund tonnum var úthlutað. Þeim var úthlutað í eignasafnið hjá þeim sem fyrir eru í greininni. Það getur vel verið að einhverjum finnist það sjálfsagt en mér finnst það ekki. Mér finnst það ekki sjálfsagt. En þetta átti að vera til þess að friðþægja háttvirtum LÍÚ-mönnum að fá þessi 30 þúsund tonn. Og LÍÚ gapti og gleypti, það stóð ekki á því. En sjaldan launar kálfur ofeldið því þeir þögðu ekki lengi, bara þangað til búið var að úthluta þeim þessum 30 þúsund tonnum. Það var hljótt um þá þangað til. En þegar það var búið hófu þeir sönginn á móti línuívilnuninni og nú góla þeir hæst af öllum mönnum og heimta réttlæti.

Hvernig réttlæti skyldu þeir vilja fá? Jú, þeir vilja fá réttlæti innan klúbbsins. Réttlæti fyrir þá sem eru í klúbbnum sem á að fá úthlutað aðgangi að fiskimiðunum við Ísland. Þar skal ríkja réttlæti á milli þeirra sem eru í klúbbnum, en ekki gagnvart hinum sem eru utan hans og vildu gjarnan stunda þennan atvinnuveg. Það hefur verið og er hlutverk Samf. að berjast fyrir jafnræði og sanngjörnum leikreglum í landinu og þar á meðal í sjávarútvegi og ekki bara innan klúbbsins sem fær núna úthlutað veiðirétti, heldur almennt. Því deilan um línuívilnun snýst ekki um það hvort mismuna eigi innan hóps þessara útvöldu. Það er ekki alvörudeila um réttlæti.

,,Orð skulu standa`` voru kjörorð fundar sem haldinn var á Ísafirði. Þá var vísað til þessara kosningaloforða sem voru gefin til að kaupa sér stuðning kjósendanna í vor, stuðnings þeirra sem efuðust um réttlæti og visku stjórnarherranna, efuðust um stefnu sem felst í því að taka atvinnuréttindi fólksins í sjávarbyggðunum og gera þau að einokunarrétti útgerðarmanna, að einkavæða þjóðarauðlindina án þess að lýsa því nokkurn tímann yfir að það stæði til og reyna svo að festa eignarhaldið í sessi með öllum ráðum, m.a. með því að gera fleiri að eigendum auðlindarinnar, eins og smábátamenn, og það hefur auðvitað tekist. Ýmsir af þeim sem voru hvað harðastir andstæðingar eignarhaldsins í smábátaútgerðinni hafa snúist heilan hring, jafnvel skipt um flokka út af því, þeir sofna nefnilega betur á kvöldin hugsandi um það að ef þeir þurfi að hætta í útgerðinni þá geti þeir selt kvótann. Og það er kannski skiljanlegt stundum að menn horfi meira á eigin hag en byggðarlagsins sem þeir búa í því að hagur byggðarlagsins til framtíðar á ekki heima í slíkum hugrenningum á koddanum hjá útgerðarmönnum úti um landið. Og hagur byggðarlaga eða landshluta á ekki heldur heima á hluthafafundum í Eimskip eða slíkum fyrirtækjum, þegar spekúlantarnir telja hag sínum best borgið með því að selja Kaldbaki eða einhverjum öðrum hlutinn sinn og Íslandsmið með. Eða í framtíðinni þegar farið verður að selja erlendum fyrirtækjum Íslandsmið því það mun koma að því. Við erum búin að sjá hvert arður auðlindarinnar rennur með þessu fyrirkomulagi. Hann rennur til þeirra sem hafa krumluna á kvótanum.

Í alþjóðaviðskiptum komandi ára er alveg ljóst að verði Íslandsmið áfram til sölu, þá komast heilu landshlutarnir og að lokum landið allt í stöðu kvótalausa sjávarplássins. Þetta eru ekkert spámannleg orð, þetta er bara þróunin. Við munum ekki fara aftur út úr þeirri alþjóðlegu þróun sem við erum inni í hvað varðar eignarhald á fyrirtækjum á Íslandi. Þar verður ekki snúið aftur. Ætli menn að hafa eignarhaldið á auðlindinni í höndum fyrirtækjanna í sjávarútvegi þá mun það að lokum verða skiptimynt á alþjóðlegum markaði. Menn geta haldið öðru fram en það er mín sannfæring að þannig verði það. Já, í alþjóðaviðskiptum komandi ára er alveg ljóst að verði Íslandsmið áfram til sölu þá mun þetta fara svona. Og þá munu menn ekki vera að horfa í einhver byggðarlög á Íslandi þegar einkaeignarhaldið hefur fullkomlega náð tökum.

Við samfylkingarmenn höfum boðað stefnu sem byggist á því að koma á jafnræði til að nýta auðlindina í stað þeirrar einokunar sem gildir. Í því felst atvinnufrelsi fyrir byggðarlögin og fólkið sem þar býr. Allir sem vilja stunda útgerð sitja þá við sama borð gagnvart því að nýta auðlindina. Í vor var þessu svarað með innantómum slagorðum um að við ætluðum að leggja sjávarbyggðirnar í rúst og atvinnugreinina bara í heilu lagi. En það er ríkjandi stefna sem veldur því að fólkið hefur misst trúna á framtíð sjávarútvegsbyggðanna í landinu. Hver ætti svo sem að trúa á framtíð byggðarlaga þar sem atvinnugreinin er í hers höndum af þessu tagi? Það getur enginn stofnað nýja útgerð hér á landi. Það kostar sex- til sjöfalt meira en áður, eingöngu vegna veiðiheimildakaupanna.

Um hvað snýst svo þessi línuívilnun sem við erum að ræða hér? Er hún barátta fyrir atvinnufrelsi og réttlæti? Nei, það eru bara þeir sem eiga Íslandsmiðin núna sem eiga að fá viðbót. Engir aðrir. Er hún stórfelld mismunun eins og LÍÚ og ýmsir aðrir halda fram þessa dagana? Nei, en hún færir veiðirétt á milli útgerða og þar með á milli byggðarlaga. Sum af þeim byggðarlögum sem standa höllum fæti fá meiri heimildir en einhver sem líka standa höllum fæti tapa frá sér heimildum. Og það þurfa menn að fara yfir í nefndinni og skoða.

Það er ýmislegt í þessu frv. sem vert er að tala um. Þessi tegund af línuívilnun er ekki hluti af neinni stefnu til að ganga betur um lífríkið eða fiskstofnana eins og við höfum margir haldið fram í sölum Alþingis í gegnum tíðina að ætti að gera, og ég hef margoft talað fyrir því að menn skoði það að hafa ívilnun, veiðarfæraívilnun sem byggist á slíku þar sem menn horfi á það hvernig veiðarfæri fara með botninn, með lífríkið, hvernig þau fara með fiskinn og aðrar tegundir en þær sem verið er að veiða. Og þannig þróuðu menn upp kerfi þar sem hægt væri að hafa áhrif á útgerðina, á það hvernig menn veiða fisk.

Það var a.m.k. ætlun mín þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom með sitt frv. að við settumst yfir það, vegna þess að okkur sýndist hann vera einn á báti og væri að setja traust sitt á stjórnarandstöðuna að einhverju leyti, að setjast yfir það frv. með honum og velta því fyrir okkur hvort hægt væri að ná fram einhverjum breytingum á þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem einhver glóra væri í. Svo langt komst málið aldrei því að sú umræða fór aldrei fram. Hæstv. ráðherra kom með sína tillögu og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur dregið tillöguna sem hann flutti sem breytingartillögu við mál sem lá inni í nefndinni til baka og hefur hana kannski svona með í umræðunni um það sem hæstv. ráðherra er kominn með hér núna.

En skyldi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vera ánægður með tillögur hæstv. sjútvrh.? Hann hlýtur að koma að því á eftir, en ég sé að það er æðimargt öðruvísi í frv. ráðherrans en í breytingartillögu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar við málið sem lá inni á Alþingi. Það er bæði það sem er í frv. hæstv. ráðherra og það sem er þar ekki og er í tillögu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Það er t.d. ekki neitt um dagabátana í frv. hæstv. ráðherra. Það er í tillögu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þeirra báta bíður ekkert annað en að verða úti á heiðinni, verða sem sagt veiðiheimildalausir með tímanum, ef svo heldur fram sem horfir og lögin standa óbreytt sem um þann flokk gilda.

Línuívilnun gagnvart þorskveiðum sem hæstv. ráðherra er að boða hér er svona eins konar ólympískar veiðar. Gefið verður rásmerki á einhverjum mánaðamótum og svo eiga menn að veiða og veiða og veiða þangað til Fiskistofa segir stopp og hæstv. ráðherra flautar af, og svo verður aftur flautað til leiks við einhver önnur mánaðamót. Í umræðum hér var talað um það af hæstv. sjútvrh. og fleirum að það væru mjög óheppileg sóknarhvetjandi áhrif af svona fyrirbrigði eins og þessu. Hæstv. ráðherra leggur þetta nú samt til.

Nú er líka verið að flytja byggðakvótann sem framsóknarmenn ætluðu að hækka mikið samkvæmt kosningaloforðunum, það á að leggja hann niður og leggja byggðakvótann undir hæstv. sjútvrh. sem hefur ekki verið sá sem hefur mest hælt byggðakvótum á undanförnum árum og er þá ekki tekið mjög djúpt í árinni. En hæstv. ráðherra verður sem sagt byggðakvótaráðherra samkvæmt þessu.

Síðan er það skerðingin á krókaaflamarksbátunum. Ég er nú hræddur um þegar menn átta sig á því hvað er þar á ferðinni að þá muni hvína í einhvers staðar. En hér er verið að taka af viðbætur sem voru settar til þessa hóps þegar hann var skertur verulega fyrir stuttu síðan. Þannig er bæði verið að gefa og taka í þessu frv. Ekki var það í tillögum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Og tegundatilfærslan var þar ekki heldur sem hæstv. ráðherra er að mæla fyrir núna þar sem menn galdra eina tegund og búa til úr henni aðra, sem ég hef aldrei skilið og hef aldrei áttað mig á að í kerfi þar sem menn geta haft viðskipti að sinni vild með tegundir þá skuli þeir þurfa að hafa leyfi til þess að búa til einhverja allt aðra tegund úr þeim fiski sem þeir koma með að landi. Þetta er furðulegt fyrirbrigði. En hæstv. ráðherra hefur greinilega fundið fyrir því að einhverjir þyrftu á þessu að halda og komið með það hér inn.

Það hefði líka verið gaman að ræða um það, og við gerum það auðvitað í nefndinni, hvort ekki ætti bara að vinda sér í það að taka einhverjar tegundir út úr kvótanum. Ég held að það væri góð umræða til þess að fara fram í nefndinni.

Hæstv. forseti. Þetta frv. er svo sem ekki merkilegt í röð endalausra breytinga sem hafa verið gerðar í gegnum tíðina á þessu kerfi. Þær eru gerðar vegna þess að stefnan er byggð á óréttlæti og mismunun. Henni hefur verið þröngvað fram undir fölskum formerkjum og henni er stöðugt mótmælt. Þess vegna eru stjórnvöld að hrekjast undan og lofa bótum en þau verja samt alltaf grundvöll óréttlætisins sem er í kerfinu. Það verður ekki minni ófriður um stjórn fiskveiða þó að þetta mál verði samþykkt.