Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:14:55 (3028)

2003-12-10 14:14:55# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hérna er í rauninni tiltölulega einfalt. Þetta er frv. um það að búa til 16% línuívilnun. Það er svona grunnhugmyndin. Þetta er mál sem búið er að ræða fram og til baka og ég hygg að flestir landsmenn hafi skoðun á málinu, a.m.k. þeir sem koma nálægt sjávarútvegi, og ég hélt, virðulegi forseti, að hv. þingmenn hefðu allir ákveðnar skoðanir á þessu máli, væru með því, á móti því, með efasemdir eða eitthvað annað.

[14:15]

En nú hef ég hlustað á hv. 2. þm. Norðvest., Jóhann Ársælsson, sem hefur setið í sjútvn. öll þau ár sem hann hefur verið á Alþingi. Ég gat ekki áttað mig á því hvaða skoðun hv. þm. hefði á þessu máli. Ræða hv. þm. var svona fréttaskýring og vil ég vekja athygli fjölmiðlamanna sem hér eru á því að hér er kominn fréttaskýrandi og sestur á þing. Kannski er laust aukastarf við fréttaskýringar á einhverjum fjölmiðli, því að hv. þm. fór yfir það að: Kosningabaráttan gekk nú svona og svona, hún var svona á Vestfjörðum og einhvern veginn öðruvísi annars staðar og menn voru að ræða um þessa hluti þar svona og þá brást Sjálfstfl. við svona, og allt gekk þetta nú svona fyrir sig.

Svo varð fréttaskýrandinn skyndilega svolítið sár og bitur, hann breyttist úr fréttaskýranda í sáran og bitran frambjóðanda sem skammaði kjósendur í Norðvest. því að þeir hefðu bitið á agnið og fylgt Sjálfstfl. og öðrum sem töluðu fyrir línuívilnun og þeir ættu nú bara að skammast sín, heyrðist mér einna helst.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. mjög einfaldrar spurningar sem mundi greiða mjög fyrir þingstörfum --- eins og stundum er nú sagt í þessum sal --- og auðvelda okkur sem þurfum að fara að setjast yfir málið í sjútvn. þegar málinu verður vísað þangað: Hver er afstaða hv. þm.? Styður hann línuívilnun?