Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:23:51 (3033)

2003-12-10 14:23:51# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, auðvitað er þetta á kostnað byggðakvóta. Það liggur fyrir í frv. að það er verið að leggja af byggðakvótann sem Framsókn ætlaði að hækka þessi ósköp fyrir kosningarnar. Það er ekki hægt að orða það þannig að það sé á kostnað dagabátanna, það er ekki minnst á þá þarna, það er bara gert ráð fyrir því að þeir haldi áfram að missa veiðirétt í lögunum sem gilda um þá.

Þetta er hins vegar auðsjáanlega á kostnað krókaaflamarksbátanna. Það er gert ráð fyrir beinni skerðingu hjá þeim á næstunni. Ég held að það þurfi töluverða umræðu líka hvort það sé eðlilegt að þannig verði á málunum tekið. Það er því bæði verið að gefa og taka, eins og ég sagði áðan, og mér finnst í sjálfu sér að það sé æðimargt sem þurfi að fara yfir. Ég vona að við fáum tækifæri til þess í nefndinni að fara vel yfir þetta með þeim sem eiga hlut að máli, öllum helstu hagsmunaaðilunum hvað varðar þetta mál svo að menn viti a.m.k. hver áhrifin verða. Það er greinilegt að menn hafa gert sér í hugarlund að veruleg vandamál gætu komið upp vegna útfærslunnar.

Sums staðar eru menn með stórar tölur uppi um það hvað þeir tapi miklum veiðiheimildum á þessu. Ég held að það væri gagnlegt fyrir nefndina að fara yfir það og sjá það betur. Þær tölur sem sjútvn. fékk að heyra í haust í ferð sinni um Suðurland voru svo háar að það er ástæða til þess að fara yfir það hvort þær hafi verið réttar og nýjar tölur eru komnar frá sömu mönnum sem þarf að fara yfir líka.