Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:48:17 (3036)

2003-12-10 14:48:17# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. viðskrh. er náttúrlega mjög upptekin af gróðanum og er náttúrlega enn þá í himinljóma yfir gróða bankanna. (Gripið fram í.) Ég er sammála því að við þurfum að eiga sterk sjávarútvegsfyrirtæki en við þurfum líka að eiga íbúa í landi sem hafa atvinnuöryggi í sjávarplássunum, ekki aðeins á Vestfjörðum og Norðurlandi heldur alls staðar á landinu, þeir eiga líka sinn rétt til þessarar auðlindar. Það má ekki kasta rýrð á þá eins og hæstv. viðskrh. er að gera. Það eru ekki bara útgerðirnar sem eiga þennan rétt heldur íbúar landsins líka, íbúar viðkomandi byggðarlaga. Þeir hafa verið hlunnfarnir eins og kom rækilega fram í áherslum hæstv. ráðherra.

Ég er ekki innanbúðarmaður hjá Framsfl. eða Sjálfstfl., samþykktum sjálfstæðismanna eða samþykktum framsóknarmanna. Ég sé hins vegar í viðtali við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem er í Framsfl. og formaður sjútvrn., að hann segist vera mjög ósáttur við þær yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. að beita byggðapottunum til þess að ná fram línuívilnun. Það hefur ekkert að gera með það hvort þeir séu vel eða illa nýttir núna, ef þeir eru ónýttir eins og hæstv. ráðherra upplýsti, að ákveðinn hluti af byggðapottunum sé ónýttur. Ég tel að það væri fyllilega þörf fyrir þá víða og ætti að kanna það hvort ekki sé ástæða til þess að úthluta þessum byggðakvótum heldur en að liggja á þeim, því þörfin er vissulega brýn og sýnir að þeir sem þar hafa um að véla fylgist ekki nógu vel með erfiðu ástandi í mörgum byggðarlögum. Það væri ástæða til þess að úthluta þessum pottum, virðulegi forseti.