Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:50:36 (3037)

2003-12-10 14:50:36# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. að það er þörf fyrir byggðakvóta. Þess vegna er ákvæði í frv. þess efnis að hafa a.m.k. heimild til þess að halda áfram að úthluta heimildum í tengslum við áföll sem kunna að verða í byggðarlögunum. Það vona ég að hv. þm. hafi áttað sig á og hafi lesið.

Vegna atvinnuöryggisins sem hv. þm. talar um, vildu áreiðanlega allir þingmenn geta tryggt það að fólkið í landinu hefði vinnu. En það er nú einu sinni þannig að það er því miður ekki hægt að tryggja nokkra hluti. Og það að verkalýðsleiðtogar hafa núna ályktað og tjáð sig á móti þessu frv. vegna þess að þeir óttast um rekstrargrundvöll stóru fyrirtækjanna í byggðarlögunum segir sína sögu. Það er í rauninni nýjung að verkalýðshreyfingin virðist vera að átta sig betur og betur á því hvers virði þessi fyrirtæki eru. Ef farið yrði eftir stefnu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og vinstri grænna í sjávarútvegsmálum væri ekki nokkurt rekstraröryggi fyrir þau fyrirtæki sem þurfa að byggja afkomu sína á því að hafa sterka markaði og hafa vöru til afhendingar í hverri einustu viku allt árið um kring.