Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:58:44 (3041)

2003-12-10 14:58:44# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Línuívilnun er bundin við veiðarfæri en ekki stað. Ég tel því ekki eðlilegt að setja takmarkanir af ráðstöfun afla sem veiðist með ívilnuninni umfram almenn skilyrði um ráðstöfun afla, fyrir utan byggðakvótann sem er auðvitað af öðru tagi eins og ég gat um áðan.

Ég get tekið undir sumt af því sem fram kom í máli hv. þm. Það er rétt að minna á að það er samkomulag um það og það er í lögum að veiðiheimildir eru ekki eign útgerðarmanna. Það er meira að segja tekið fram að þær séu sameign þjóðarinnar. Það er samkomulag t.d. milli stjórnarflokkanna um að setja ákvæði um þetta eignarhald í stjórnarskrá Íslands einmitt til að undirstrika það að veiðiheimildir eru ekki eign útgerðarmanna. Þeir hafa þær hins vegar til afnota og hafa haft mikið forræði á því hvernig þeim er ráðstafað eins og almennt gengur og gerist í atvinnurekstri.

En vandkvæðin sem hafa verið uppi og menn hafa oft tekist á um, eru að hagsmunirnir eru fleiri en hagsmunir útgerðarmanna og þeir fara ekki alltaf saman. Útgerðarmaður getur tekið ákvörðun sem gagnast honum best, en gengur gegn hagsmunum annarra, svo sem þeirra sem vinna við atvinnugreinina í landi eða á sjó og eru launþegar. Sá átakaflötur er enn til staðar og menn hafa ekki náð tökum á að leysa þannig að verði friðsamleg sambúð að þessu leytinu til. Þegar samþjöppunin hefur verið eins mikil og raun ber vitni á veiðiheimildum höfum við mörg dæmi um að hagsmunir fólks í þeim byggðarlögum hafi liðið fyrir ákvarðanir einstakra útgerðarmanna.