Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:29:12 (3046)

2003-12-10 15:29:12# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir ágæta ræðu og hlýjan hug í garð minni sjávarbyggða.

Í máli hæstv. sjútvrh. kom fram að þetta frv. beindist ekki að því að skerða byggðakvóta til að auka við línuívilnun eða koma á línuívilnun. Hann sagði að það ætti ekki heldur að minnka rétt dagabáta til að sækja sjó. Þess vegna spyr ég hv. þm. hvort hann væri ekki tilbúinn að leggjast á sveif með okkur í Frjálslynda flokknum við að það verði gert skýrt í lögunum að svo verði ekki, að sett verði gólf í dagakerfið, 23 daga gólf.

Á fundi á Ísafirði kom fram að hv. þm. væri fylgjandi því að koma á gólfi. Er þá ekki rétt að þessi lög verði skýr? Þá getum við í Frjálsl. stutt þetta heils hugar, verði þetta ekki á kostnað byggðakvótans og dagabátanna.