Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 15:32:38 (3048)

2003-12-10 15:32:38# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég spurði hv. þm. þessara spurninga var sú að þetta er ekki skýrt í frv. Það er gefið til kynna, og hv. þm. Jóhann Ársælsson skildi þetta á sömu lund og ég, að þessi línuívilnun væri að einhverju leyti á kostnað byggðakvótans. Það verður þá að koma skýrt fram í texta frv. að svo verði ekki.

En varðandi það að þorskstofninum verði einhver hætta búin af stærri vélum í smábátum, þá ber þess að geta að í Færeyjum er jafnvel verið að hugsa um þetta og hann tók ekki illa í það, einn stórútgerðarmaður í Færeyjum, að gefa smábátaveiðina að miklu leyti frjálsa. Ein afleiðingin af kvótakerfinu er náttúrlega sú að fólk er farið að hugsa með röngum hætti um auðlegðina, að halda það að fiskur sem drepinn er við Vestmannaeyjar eigi að dragast frá kvóta á Bakkafirði er hrein og klár vitleysa. Það væri fróðlegt að heyra m.a. afstöðu hv. þm. hvort honum finnist það eðlilegt. Er ekki rétt að taka þetta kerfi til endurskoðunar eins og við frjálslyndir höfum ítrekað bent á? Það stenst ekkert líffræðilega að draga fisk sem er drepinn við Vestmannaeyjar frá kvóta t.d. á Austurlandi, á miðum þar. Þetta er bara þvæla. Menn verða að fara að horfast í augu við það að taka þetta kerfi í heild sinni til endurskoðunar. En ég vil að hv. þm. svari því skýrt: Er verið að skerða byggðakvótann eða er ekki verið að skerða byggðakvótann?