Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 18:28:35 (3058)

2003-12-10 18:28:35# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það væri afar nauðsynlegt að þetta frv. kæmi á skiljanlegu mannamáli fram því menn eru að reyna að lesa í það. Reyndur þingmaður eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er að velta fyrir sér hvað standi í frumvarpstextanum. Það er náttúrlega alveg óþolandi að hæstv. sjútvrh. skuli vera með þetta svona óljóst.

Það er heimild fyrir ákveðnu magni af byggðakvóta samanlagt þó að honum sé ekki öllum ráðstafað núna. Að bera saman tölur í frv. miðað við ráðstafaðan byggðakvóta er því ekki það sama og hver heimildin er nú, því mér sýnist fyrst og fremst verið að skerða heimildina. Er byggðakvótinn þá eðlilega nýttur í dag miðað við þær heimildir sem liggja fyrir?

Í lokin: Telur hv. þm. að skilyrði stjórnarsáttmálans séu uppfyllt með því að auka byggðakvótann eins og stendur skýrum stöfum í stjórnarsáttmálanum að skuli gera?