Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 18:33:28 (3061)

2003-12-10 18:33:28# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[18:33]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það geti alveg rúmast að hafa öll ákvæði um byggðakvóta innan sömu greinarinnar. Það er að sumu leyti framför í því að setja þau inn í 9. gr. í stað þess að hafa þau í bráðabirgðaákvæðum, þá eru þau ákvæði orðin miklu varanlegri. Það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að færa ákvæðin inn í 9. gr.

Það sem ég legg áherslu á er að við þessu breytingu gæti menn þess að ekki sé verið að minnka þá kvóta sem við höfum haft þannig að breytingin sé ekki til þess að draga saman seglin í þessum efnum.

Ég legg líka áherslu á að við gætum þess við þessa breytingu að raska ekki högum í einstökum byggðarlögum sem hafa treyst mjög á byggðakvóta. Ég get nefnt staði eins og Breiðdalsvík, Bíldudal eða Þingeyri. Þó að menn viti að byggðakvóta sé ekki úthlutað nema til takmarkaðs tíma, fimm ára, eins og þarna var, ég get nefnt Hofsós og fleiri staði, þá verðum við að gæta þess að kippa ekki fótunum undan því atvinnulífi sem er á þessum stöðum. Menn verða að geta gengið út frá því sem vísu að þeir geti búið við svipaðar aðstæður áfram og verið hafa, a.m.k. getur það ekki verið markmið breytinganna að slá undan mönnum fæturna í þessum veiku byggðarlögum.

Hvað varðar ákvæðið um þorskinn þá verð ég að viðurkenna að ég hefði talið betra að hafa ekki hámarksákvæði og að þetta væri bara eins og í ýsunni og steinbítnum. Það er hlutur sem við munum ræða en í svona máli eru auðvitað mörg sjónarmið. Menn þurfa að ná sameiginlegri niðurstöðu þannig að oft er sameiginleg niðurstaða öðruvísi en maður gæti hugsað sér. Ég mun a.m.k. fylgja því eftir í gegnum þingið að þetta ákvæði nái fram að ganga, fremur en að ekkert ákvæði geri það.