Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 18:41:42 (3067)

2003-12-10 18:41:42# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. sjútvrh. á þskj. 594, um breytingar á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Þetta er í raun annað frv. sem hæstv. sjútvrh. leggur nú fram um breytingar á þessum sömu lögum. Frumvarpið hefur verið kynnt sem svokallað línuívilnunarfrumvarp en línuívilnun, til hluta dagróðrabáta, er einungis lítill hluti af efni frv. Ég tók eftir því að hæstv. sjútvrh. kynnti málið í framsögu sinni þannig að meginhluti frv. væri línuívilnun. En þegar maður fer yfir þetta og les frv. eins og það liggur fyrir er línuívilnun varla meginhluti frv.

Það hefur verið mikið rætt um línuívilnun frá því að stjórnarflokkarnir lögðu á hana áherslu og lofuðu henni í kosningum í vor. Þó að þingið hafi staðið vel á þriðja mánuð þá hefur ekkert bólað á efndum þessa kosningaloforðs fyrr en nú.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að hæstv. sjútvrh. hefur ekki verið fylgjandi ívilnun til dagróðrabáta með línu og í raun dregið lappirnar í að efna þetta kosningaloforð sem margir halda þó fram að hafi fleytt stjórnarflokkunum áfram til stjórnarsetu að afloknum síðustu kosningum.

Öll munum við viðtöl við hæstv. ráðherra þar sem hann hefur sagt að ekkert liggi á að efna þetta kosningaloforð og við mættum vænta frv. um málið á næsta ári. Það er reyndar undarlegt með flest kosningaloforða stjórnarflokkanna. Það virðist frekar regla en undantekning að efna þau ekki. Menn draga alla vega lappirnar við að efna þau. Nægir þar að nefna samninginn við öryrkjana, lækkun skatta og Héðinsfjarðargöng, svo eitthvað sé nefnt.

Nú er loks komið fram frv., eftir að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sitjandi formaður sjútvn., lagði fram brtt. við frv. um Verkefnasjóð sjávarútvegsins, sem ráðherra setti fram fyrir nokkru og ég ræddi um áðan. Það er pínlegt að horfa á hæstv. ráðherra halda því fram að tillögur þingmannsins um tilhögun á línuívilnun í sjútvn. hafi ekkert að segja eða gera með frv. sem nú kemur frá ráðherra. Allir sem fylgst hafa með málinu vita að eftir að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði fram tillögur sínar og ýmsir stjórnarliðar lýstu við þær stuðningi eða jákvæðu hugarfari var ekki um annað að ræða fyrir hæstv. ráðherra en að kasta fram frv. í talsvert breyttri mynd frá tillögum þingmannsins um sama efni. Frumvarp ráðherrans fjallar, eins og áður sagði, að hluta um línuívilnun en ekki síður um svokallaðan byggðakvóta og tegundatilfærslu í kvóta.

[18:45]

Ég minnist þess ekki að frambjóðendur stjórnarflokkanna hafi í kosningabaráttunni spyrt saman loforð sín um línuívilnun og byggðakvóta. Því kemur á óvart að sjá þessi óskyldu atriði spyrt saman í frv. ráðherrans en er þó í anda þess sem hann hefur sagt eftir kosningar.

Ég held að öllum sem fylgst hafa með málinu sé ljóst að hæstv. sjútvrh. leggur fram frv. í einhvers konar nauðvörn gagnvart þeim tillögum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði fram í sjútvn. Kjósendur hljóta að sjá þetta, þeir eru ekki fávitar og það eru hv. þm. ekki heldur. Það er þó talsvert mikill munur á tillögunum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði fram í sjútvn. og frv. hæstv. sjútvrh.

Hér hefur ekki verið spurt um leynisamkomulag sem talað hefur verið um í fjölmiðlum varðandi ísprósentu, að ástæðan fyrir því að talað er um 16% línuívilnun núna en ekki 20% sé að einhvers konar samkomulag sé í gangi sem ekki sé búið að segja frá um að ísprósenta í afla sem landað er af dagróðrabátum megi fara úr 3% í 7% og þannig sjái menn fyrir sér að einhvern veginn verði þessi ívilnun meiri.

En lítum aðeins á efnisatriði frv. Hér leggur hæstv. ráðherra í raun til enn einar sértæku aðgerðirnar í úthlutun aflaheimilda úr okkar sameiginlegu auðlind. Tillögur hans ganga klárt og kvitt út á það að taka frá aflaheimildir til að mæta þeirri ívilnun sem hann leggur til og minnka þannig þann pott sem eftir verður til almennrar úthlutunar eins og núverandi lög um stjórn fiskveiða gera ráð fyrir. Það er nokkuð erfitt að sjá hvernig tillögur ráðherrans nú samræmast þeim málflutningi sem hann og helstu stuðningsmenn núverandi kvótakerfis hafa haft uppi um að leikreglur verði að vera skýrar, það sama eigi að gilda fyrir alla og ekki megi hræra í kerfinu með sífelldum breytingum á lagaramma sem unnið væri eftir. Og höfum í huga að fram eru komin tvö frv. til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða á þessum tæpu þremur mánuðum sem þing hefur setið eftir kosningar.

Í raun er þetta ekkert nýtt. Fiskveiðistjórnarkerfið tekur sífelldum breytingum. Það er sífellt verið að plástra og bæta þannig að í raun er þetta farið að minna mann á sjóstakk sem er bæði rifinn og götóttur og reynt að tjasla saman með garni eða líma bætur yfir það versta en þeim sem í honum er og er á sjónum líður bölvanlega í honum vegna þess að hann er illa blautur og stakkurinn nær ekki að sinna því hlutverki sem hann er gerður fyrir.

2. gr. í frv. eins og það liggur fyrir, byggðakvóti. Hann dúkkar allt í einu upp í frv. um línuívilnun. Maður veltir fyrir sér hvort hæstv. ráðherra hafi hugsað sem svo þegar hann sat niðri í ráðuneyti og sá fram á að hann yrði að leggja fram frv. um línuívilnun að kannski væri eins gott að henda þessu fram með byggðakvótann líka. Byggðakvótinn færi væntanlega í taugarnar á framsóknarmönnum og það væri kannski rétt bara að henda honum þarna inn líka og sjá til hvernig færi ef honum væri blandað saman við þessa línuívilnun sem hæstv. ráðherra hefur ekki verið hrifinn af frá því að hún var samþykkt á landsfundi Sjálfstfl.

Samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru hefur ráðherra 12 þús. tonn af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til að mæta sérstökum áföllum. Þetta er í 9. gr. laganna og nú er verið að leggja til að innan þessara 12 þús. tonna verði allur byggðakvótinn. Þetta hefur verið þannig að af 12 þús. þorskígildistonnum hafa 1.500 tonn verið eyrnamerkt til að úthluta í samráði við Byggðastofnun til stuðnings byggðum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, eins og það er orðað.

Frv. hæstv. sjútvrh. breytir þessu með þeim hætti að hann má nota allt það sem ekki verður notað af 12 þús. tonna ígildunum til að mæta verulegum breytingum á aflamarki einstakra tegunda til stuðnings byggðum í vandræðum. Heimildin er því útvíkkuð talsvert og einnig gerð breyting á þeim ástæðum sem kallað geta á úthlutun.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði í framsögu sinni að eftir af þessum 12 þús. tonnum nú fyrir þetta fiskveiðiár væru 6.200 tonn. Það vekur athygli mína að lögin taka að mestu leyti gildi 1. september á næsta ári og því er ekki óeðlilegt að spurt sé, úr því að 6.200 tonn eru eftir af þessum 12 þús. tonnum og hefur ekki verið úthlutað til þess sem lögin hafa heimilað hingað til, hvort hæstv. ráðherra hafi hugsað sér að taka þess 6.200 tonn, eða hluta af þeim, og deila út á þessu fiskveiðiári eða hvort þau bíði fram til 1. september, jafnvel verði ekki hróflað við þeim og þau verði eftir þegar fiskveiðiárinu lýkur.

Í frv. ráðherra segir, með leyfi forseta, að ráðherra geti ,,ákveðið að eftirstöðvum aflaheimilda, sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 1. málsl., eða hluta þeirra, verði ráðstafað í samráði við Byggðastofnun til stuðnings byggðarlögum þannig:

a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum á bolfiski.

b. Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.``

Nú veltir maður fyrir sér, virðulegi forseti, hvort þetta orðalag sé nægilega skýrt í frv. eins og það liggur fyrir. Við vitum öll hvernig svokölluðum ráðherrakvóta hefur verið deilt út um landið. Ég þarf ekki að fara lengra en í Vatnsleysustrandarhrepp þar sem ég bý, sveitarfélag sem að mestu leyti uppfyllir þau skilyrði sem sett voru fyrir því að fá hluta af þessum kvóta en vegna þess að Vatnsleysustrandarhreppur er utan byggðakorts Evrópusambandsins kemur hann ekki til greina og fær ekki úthlutað. Nú vill svo til að Gerðahreppur og Sandgerði eru líka á þessu sama svæði og eru þar af leiðandi utan þessa byggðakorts Evrópusambandsins en þrátt fyrir það fá þau byggðakvóta. Þegar spurt hefur verið eftir hefur ekki verið neitt um svör. Annars vegar er byggðakortið notað til að segja að þrátt fyrir að sveitarfélagið, eða útgerðir þar, uppfylli skilyrði fá þau ekki byggðakvóta og hins vegar er sagt að byggðakortið skipti engu máli úr því að ,,mér finnst`` þessi sveitarfélög þurfa á byggðakvóta að halda.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í tegundatilfærsluna. Hér er verið að rýmka þær heimildir til tegundatilfærslu innan tegunda talsvert frá því sem verið hefur. Ég held að ég hafi skilið hæstv. ráðherra rétt þegar hann sagði að þetta gæti þó aldrei orðið meira en 5%, eins og stendur í lögunum í dag um heildartilfærslu, en það mætti vaxa úr 2% innan tegundar eins og það er núna upp í þá 5% eins og það er fyrir allar tegundir í samsettum kvóta.

Ég hef reyndar aldrei skilið, frekar en hv. þm. Jóhann Ársælsson, hvernig í ósköpunum það getur verið í lagi í því kerfi sem við búum við að veiða eina fisktegund og setja til þess kvóta af annarri fisktegund. Okkur hefur verið sagt að þessi vísindi sem fiskveiðistjórnarkerfi okkar byggir á séu þó það nákvæm að það skipti máli hvort það séu þúsund tonn til eða frá í tegund. Þess vegna getur maður ómögulega skilið, eins og núna þegar nóg er til af ýsukvóta, að það megi breyta honum í talsvert stórum stíl, og í meiri stíl en áður, yfir í karfa, yfir í steinbít eða yfir í aðrar tegundir þar sem kvóti dugir ekki fyrir þeirri veiði sem menn sjá fram á.

Síðan komum við að 3. gr. Þá erum við loksins komin að svokallaðri línuívilnun. Hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir því í frv. sínu að dagróðrabátar sem beita línu í landi og landa afla innan 24 klukkustunda frá upphafi veiðiferðar megi landa 16% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Vegna þeirrar spurningar sem kom fram áðan frá hv. þm. Gunnari Örlygssyni varðandi 3. gr. frv., hvort það eigi eingöngu við um báta sem beita línu í landi, sé ég ekki betur en það standi skýrum stöfum í frv. og óska eftir því að hæstv. ráðherra svari okkur því hvort það sé ekki réttur skilningur að hér sé eingöngu verið að tala um báta sem beita línu í landi og fara með balana þannig um borð en ekki um trektarbáta sem svo eru kallaðir.

Í þessu frv. er sett þak á þorskinn þannig að til þessarar línuívilnunar er ráðstafað 3.375 lestum af óslægðum þorski. Það er rétt að vekja athygli á því að leiguverðmæti þessa afla á kvótaleigumarkaði --- ég leitaði mér upplýsinga um það í morgun --- eru um 405 millj. kr., þ.e. rétturinn bara til að sækja þessi kíló af þorski einu sinni úr hafinu. Varanlegt verðmæti þessara tonna sem þarna um ræðir er rúmir 4 milljarðar kr. Við erum ekkert að tala um litla hagsmuni þar sem eru 3.375 tonn af þorski. Þetta eru miklar fjárupphæðir sem hæstv. ráðherra gerir tillögu um að notaðar verði til sértækra aðgerða til styrktar einu takmörkuðu formi útgerðar. Lái mér hver sem vill þó að ég standi hér undrandi eftir að hafa hlustað á messur um að ekki megi vera með mikið af sértækum aðgerðum eða hygla einum útgerðarmanni eða bátaformi umfram annað.

Það er ekki gert ráð fyrir því að þak sé sett á tonnafjölda í ýsu og steinbít en ráðherra heldur þó þeim möguleika opnum í frv. sínu. Það er því svolítið erfitt að leggja heildarmat á verðmæti þeirra aflaheimilda sem hér um ræðir en vænta má að þetta leiguverðmæti sé vart undir 600 millj. kr. á ári, eins og það liggur fyrir í frv. ráðherrans. Það er í raun sá árlegi styrkur sem ráðherra leggur til að þeir línubátar fái sem beita í landi og stunda dagróðra. Þá erum við bara að tala um línubátana sem beita línuna í landi en ekki trektarbátana.

Síðan hefur komið fram í umræðunni og það er alveg rétt, virðulegi forseti, að frv. gerir ráð fyrir að skipta árinu í fjögur tímabil, skipta ívilnun í þorski á þessi tímabil í ljósi reynslunnar. Það er alveg ljóst að það fyrirkomulag sem þarna er lagt til mun leiða til keppnisveiða. Allir sem vettlingi geta valdið og fallið geta að reglu ráðherra munu hefja kapphlaup um þau verðmæti sem þarna eru í boði. 405 millj. í leigu á kvóta eru ekkert litlir peningar. Það er ekki nema eðlilegt að þetta gerist því að það er akkúrat það sem hæstv. ráðherra er að bjóða upp á.

Eigendur og útgerðarmenn stærri báta munu skoða í fullri alvöru hvort vænlegt geti verið að taka þátt í þessu kapphlaupi og því mun reynslan aftur í tímann hafa lítið að segja um hvernig þessum veiðum verður háttað ef frv. hæstv. ráðherra verður að lögum.

Ég hugsa til þess með talsverðum kvíða ef raunin verður sú að þetta verði kapphlaup milli stærri og smærri báta, sérstaklega í skammdeginu þegar allra veðra er von. Ég skil satt að segja ekki hvernig ráðherranum dettur í hug að ætla að bjóða upp á þetta form af ólympískum veiðum eins og útgerðarmenn hafa kallað það svo oft þegar talað er um einhvers konar sókn. Það er í algjörri andstöðu við allt það sem hæstv. ráðherra hefur sagt áður um stjórn fiskveiða.

Varðandi 4. gr. er ráðherrann að leggja til að svokallaður byggðastofnunarkvóti verði lagður af á tveimur árum, minnki fyrst um helming og eyðist síðan alveg út. Línuívilnun sem lögð er til í frv. á síðan að taka gildi 1. september á næsta ári í þorski, en í ýsu og steinbít þann 1. febrúar. Ég lýsi satt að segja undrun minni á því ef ráðherra ætlar þinginu að afgreiða þetta mál á örfáum dögum, eins og mér sýnist raunin. Þetta mál hlýtur að vera stærra og vandasamara en svo að hægt sé að skófla því í gegnum þingið með þeim hætti sem í stefnir og væri í raun öllum sem mundu afgreiða það þannig til vansa. Málið fer nú til sjútvn. þar sem ég vona að það fái vandaða málsmeðferð. En ég sé ekki betur en að hér séu í raun lögin öll um stjórn fiskveiða undir þegar málið kemur til kasta sjútvn. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur gefið upp boltann með það með brtt. sinni við frv. um breytingu á stjórn fiskveiða sem varðaði Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Ég get því engan veginn útilokað það þegar málið gengur til sjútvn. að fram komi brtt. við fleiri greinar í þessum lögum en hér er lagt til. Miðað við hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig hlýtur að vera bæði eðlilegt og sjálfsagt að menn noti tækifærið fyrst búið er að opna lögin um stjórn fiskveiða og skoði hvort ekki sé með einum eða öðrum hætti hægt að gera þau sanngjarnari, réttlátari og þannig úr garði að þau mismuni ekki íbúum á Íslandi eftir því hvort þeir voru í útgerð á ákveðnu tímabili, hvort þeir hafi átt feður sem voru í útgerð á ákveðnu tímabili eða af öðrum undarlegum ástæðum.