Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 19:00:52 (3068)

2003-12-10 19:00:52# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi til mín tveimur spurningum. Önnur var um hvort ég hygðist ráðstafa því sem hann kallaði óráðstafaðan hluta af 12 þús. tonnunum í 9. gr. laganna á þessu fiskveiðiári. Því er til að svara að því sem ekki var notað vegna fyrirsjáanlegs aflasamdráttar var úthlutað á önnur skip eftir aflahlutdeild þeirra. Því sem eftir var hefur þegar verið ráðstafað á þessu fiskveiðiári.

Síðan spurði hann hvort ívilnunin tæki einungis til báta sem beittu í landi. Því er til að svara: Já, þetta tekur einungis til dagróðrabáta sem beita í landi og taka línuna beitta um borð. Nokkrar mismunandi aðferðir eru notaðar við að beita úti á sjó og er ekki um það að ræða að ívilnunin gildi um þær aðferðir.

Það kom mér svolítið á óvart í ræðu hv. þm. hversu gagnrýninn hann var á tegundatilfærsluna. Eitt af því sem talið hefur verið skipta máli í fiskveiðistjórnarkerfi eins og við erum með er að fyrir hendi sé tiltekinn sveigjanleiki. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel að skipti máli. Það hefur verið skýrt hvers vegna það er inni í frv. en hv. þm. og reyndar fleiri þingmenn hafa kosið að líta fram hjá því, þ.e. varðandi keiluna og lönguna.

Enn einn hv. þm. Samf. hefur komið hér í ræðustól og ég er enn ekki algjörlega viss um afstöðu Samf. í málinu. Ég verð að segja það, herra forseti.