Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 19:43:18 (3072)

2003-12-10 19:43:18# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, GMJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[19:43]

Grétar Mar Jónsson:

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frv. um línuívilnun sem virðist fara fyrir brjóstið á mörgum og margir vera áhyggjufullir út af. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa miklar áhyggjur af þessu máli. Þetta er hámark 3.300 tonn af þorski, steinbít og ýsu. Mér sýnist ýsukvótinn vera það mikill í ár að það sé ólíklegt að hann verði allur veiddur. Ekki kannski út af því að ekki sé hægt að veiða hann heldur er verð á ýsu mjög lágt og í sögulegu lágmarki og þess vegna þarf ekki að reikna með því að menn leggi sig mikið eftir því að veiða ýsukvótann, enda er ýsuveiði út um allan heim, Norðmenn, Færeyingar, Danir í Norðursjónum og víðar eru að veiða mikið af ýsu. Sama má segja um steinbítinn, það er ekki liklegt að kvótinn í honum náist á árinu.

Mér finnst menn hafa of miklar áhyggjur af þessu, ég tala nú ekki um í ljósi þess að verið er að skerða byggðastofnunarkvóta úr 1.500 tonnum niður í 750 sem kemur á móti þessu, plús auðvitað 16% ef hann er veiddur á línu. Síðan er verið að skerða dagabáta úr 21 degi niður í 19 sem ætla má að þýði samdrátt í veiðum hjá þeim upp á um 1.500 tonn þannig að það er ekki mikið sem vantar upp á að það sé búið að núlla þetta. Síðan eru stórir bátar sem koma hugsanlega til með að veiða eitthvað af þessum afla, þ.e. skip sem eru á aflamarki og það má reikna með því að þau veiði eitthvað af þessum kvóta þannig að þeir sem eru að verja aflamarkskerfið sitt þurfa ekki að mínu mati að hafa miklar áhyggjur. Ég sé ekki að það fjölgi mikið atvinnutækifærum á Bolungarvík og ef það verður, þá mun það bitna á Þingeyri og stöðum sem hafa fengið byggðakvóta.

Það sem er furðulegt í þessu frv. er að bátar með trekt eiga ekki að vera inni í þessari línuívilnun og maður veltir vöngum yfir því hvers vegna það er. Það er stór hluti af bátum sem notar trekt og stokkar upp í landi þannig að ýmislegt er sérkennilegt við þessa framsetningu í frv.

Ég spyr: Hvenær á að nota ráðherrakvóta eins og atvinnuástand er á Suðurnesjum? Þegar um 6.000 tonn í ráðherrakvóta eru ónotuð spyr maður: Hvað þarf að gerast svo ástæða sé til að nota ráðherrakvótann þegar 500--600 manns eru komnir á atvinnuleysisskrá og fjölgar ört? Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að nota þennan kvóta á svæðum eins og Suðurnesjum þegar staðan er svona.

Framsókn lofaði því að auka byggðakvóta. Þetta er náttúrlega þeirra stíll, virðist vera, eftir kosningar að þeir svíkja hvert kosningaloforðið á fætur öðru.

Það er eitt sem ég tók eftir sem ekki hefur verið talað um hérna og það er að verið er að tengja þetta við tilkynningarskyldu skipa. Öryggismál sjómanna hafa verið með þeim hætti að sjálfvirk tilkynningarskylda hefur verið tekin í gagnið á mörgum skipum. Nú á að fara að nota það til veiðieftirlits og það er hlutur sem ég er mjög ósáttur við og tel ekki vera af því góða og muni jafnvel leiða til einhvers konar misnotkunar á tilkynningarskyldunni.

Það sem er hættulegast við þetta frv. að mínu mati er tegundatilfærslan, 5% af heildaraflaverðmæti, sem á bara að vera 5% af heildarþoskígildismagni sem hvert skip er búið að veiða á hverjum tíma. Að fara með það úr 2% upp í 5% og gera það í skjóli þess að menn þurfa að geta breytt í löngu og keilu, er auðvitað fáránlegt því að þetta þýðir einfaldlega það að skip sem veiðir 4.000 þorskígildistonn hefur breytingarétt upp á 5%, talað er um að þeir geti t.d. leigt inn á sig 200 tonn af ýsu og breytt því í 400 tonn af karfa, svo gott sem. Það gefur augaleið, þegar menn eru að tala um ábyrga fiskveiðistefnu og eitthvað í þeim dúr, að það er náttúrlega ekki rétta leiðin fyrir utan það að ef 10 skip gera þetta þá erum við komin í 4 þúsund tonn og ef 40 skip gera þetta þá erum við komin í fjórum sinnum það.

Það sem ég hef áhyggjur af er fiskveiðistefnan eða stjórnin sem við búum við í dag, að færa 500 milljarða fáum útvöldum í gjöf, að afhenda fáum útvöldum allan fiskinn í sjónum hringinn í kringum Ísland, það er hættulegt. Og það er það sem byggðirnar í þessu landi líða fyrir í dag og fólkið sem í þeim býr. Það er hlutur sem þarf að hafa áhyggjur af. Þetta er stærsti ríkisstyrkur sem veittur hefur verið á byggðu bóli, að afhenda einni atvinnugrein 500 milljarða, og svo horfum við upp á það að skuldir sjávarútvegsins hafa aldrei verið meiri en þær eru í dag, 220--230 milljarðar, og ástand á fiskstofnunum er langt frá því að vera viðunandi samkvæmt því sem Hafrannsóknastofnun heldur fram.

Við í Frjálslynda flokknum höfum ekki mælt með línu\-ívilnun. Við höfum viljað taka út aukategundir. Við höfum viljað taka keilu og löngu út úr kvóta, skötusel og helst ýsu og ufsa líka. Það væri allt í lagi, það væri engin hætta, það gerðist ekkert alvarlegt við það. Við höfum líka viljað breyta því sem snýr að veiðum og vinnslu. Við höfum viljað aðskilja veiðar og vinnslu og ég held að það væri líka búbót fyrir byggðir landsins ef það væri gert, og að þeim væri tryggður aðgangur að hráefni sem fá hæsta verð á mörkuðum erlendis. Og auðvitað viljum við að allur fiskur fari í gegnum fiskmarkað. Þetta er það sem við höfum viljað en því miður sýnist manni að þetta frv. verði engin lausn og sé engin lausn til eins eða neins.