Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 19:55:58 (3077)

2003-12-10 19:55:58# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, LB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[19:55]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Öll umræðan sem fram hefur farið um þetta frv. sem höfum rætt í allan dag hefur gengið út á það og einnig viðbrögð hagsmunaaðila, að verði það frv. sem hér liggur fyrir að lögum feli það í sér tilfærslu veiðiheimilda frá einu svæði yfir á annað. Eins og útgerðarmunstrin eru í dag þá eru menn fyrst og fremst að tala um að það sé tilfærsla á aflaheimildum til Vestfjarða fyrst og síðast, enda hafa Vestfjarðaþingmenn, þ.e. þingmenn sem koma frá Vestfjörðum og tilheyra gamla Vestfjarðakjördæminu, kannski talað hæst og mest fyrir þessum breytingum. Og það er kannski ástæða til þess hér og nú að óska þeim til hamingju með það að hafa þvingað ríkisstjórnina til þess að gera þetta. Þeir hafa barist einarðlega fyrir þessu.

Eins og málið lítur út eða virðist líta út mun það, verði frv. að lögum, fela í sér að aflaheimildir verða færðar frá öðrum svæðum en Vestfjörðum til Vestfjarða.

En það er samt ýmislegt í þessu, virðulegi forseti, sem gerir það að verkum að það er kannski ástæða til þess að skoða það örlítið frekar þó að ég telji að þessi hugsun búi að baki frv. og er algerlega andvígur því og tel ekki sérstaka ástæðu til að færa aflaheimildir sérstaklega til Vestfjarða frá öðrum svæðum, þá breytir það ekki því að við lestur frv. og greinargerðarinnar skýtur upp þeirri hugsun að þetta þurfi ekki endilega að vera niðurstaðan því að í frv. er hvergi að finna nokkrar takmarkanir á því hversu stór skip mega vera sem stunda línuveiðar. Þessi breyting gæti hugsanlega leitt til þess að stærri skip færu að beita í landi og róa þannig að þau rúmist innan þessara 24 tíma. Það er alls ekki hægt að útiloka það og eins það að ef það gerist, þá er hugsanlegt að verið sé að etja saman stærri og smærri skipum í ólympískar veiðar við Íslandsstrendur við mismunandi aðstæður. Það hlýtur að vera eitthvað sem menn verða að hugleiða mjög vandlega hvort er skynsamlegt því að það þekkja þeir þingmenn sem hér sitja og flestir sem hafa fylgst með sjávarútvegi undanfarin missiri að útgerðarmenn hafa verið, margir hverjir, mjög séðir að nýta sér þau tækifæri sem kerfið býður upp á. Ég á bágt með að trúa öðru þar sem ég a.m.k. kem ekki auga á neinar stærðartakmarkanir á þeim skipum sem mega stunda þessar veiðar og engar takmarkanir í reynd, enda segir í athugasemdum við frv., með leyfi forseta:

,,Enda þótt notað sé orðið dagróðrabátur venju samkvæmt takmarkast þessi heimild ekki við ákveðna stærð skipa.``

Hér er augljóslega verið að tala um það að þeim sem vilja gera út á þetta frv., ef svo má að orði komast, er það heimilt svo framarlega sem þeir uppfylla skilyrði um tímatakmörkin og beita í landi. Þannig að vel má vera að svo kunni að fara að sú hugmynd sem býr að baki þessu frv., þ.e. að færa auknar aflaheimildir á Vestfirði, gangi ekki eftir. Ég held að ekki sé hægt að útiloka það þegar maður les þetta frv. yfir og horfir til sögunnar og þess hvernig útgerðarmenn hafa nýtt sér þá möguleika sem upp hafa komið í gegnum tíðina. Um þetta vil ég að sjálfsögðu ekkert fullyrða en við lestur þessa frv. virðist mér þetta liggja fyrir.

[20:00]

Í annan stað vil ég líka benda á að mjög líklegt er að þetta muni leiða til hækkunar á kvótaverði. Það eru einfaldlega meiri verðmæti falin í því að fá að veiða 1,16 kíló af fiski í staðinn fyrir 1 kíló og mjög líklegt að það muni leiða til hækkunar á verði einfaldlega vegna þess að menn eru að ná sér í meiri verðmæti en áður. Ég held að ekki þurfi neinn sérstakan hagfræðing til þess að draga þá ályktun að þetta muni leiða til þeirrar niðurstöðu.

Það þarf því ekki að koma á óvart þó að menn hafi kannski ekki úttalað sig hér í þaula um hvaða afstöðu þeir hafa til málsins þegar efni þess er jafnóskýrt og raun ber vitni. Hugsanlega hafa menn verið á villigötum þegar þeir hafa verið að fullyrða hér mjög víða að þetta muni leiða til þess að aflaheimildir færist á Vestfirði. Hugsanlega hafa þeir verið á villigötum í þeirri umræðu. En það breytir ekki hinu að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson eru kannski þeir þingmenn sem hafa í reynd knúið hæstv. sjútvrh. til þess að leggja þetta fram að því er virðist þvert gegn vilja sínum, a.m.k. ef marka má fyrri yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir ýmsu í sjávarútvegsmálum en einkum höfum við bent á tvennt í þessu samhengi. Við höfum gert athugasemdir við eignarhaldið á kvóta, varanlegt eignarhald á kvóta. Það þekkja menn í þessari umræðu og ég ætla ekki að fara frekar í hana.

Eins höfum við lagt mikla áherslu á jafnræði, þ.e. að menn hafi jafnt tækifæri og að ekki sé sífellt verið að fikta í kerfinu, beita sértækum aðgerðum í þágu sumra á kostnað annarra. Þetta er rauði þráðurinn í þeim málflutningi sem við höfum haft uppi þó að ýmsir hafi haft athugasemdir við þær útfærslur sem við síðan höfum sett fram í hugmyndum okkar. Þetta er í reynd grunnstef okkar. Við höfum lagt á það ríka áherslu að breyting á lögunum gefi byggðarlögum sem hafa verið svipt ákveðnum tækifærum tækifæri á ný. Hér erum við að tala um það sem vegur þyngst hringinn í kringum landið. Því er ekki nema von að víða um landið hafi menn miklar áhyggjur af þeirri aðgerð sem hér á að ráðast í, kannski ekki síst vegna þess að í hvert skipti sem kvótakerfið hefur verið opnað á ákveðinn hátt þá hafa menn farið af fullum þunga í þá opnun og oftar en ekki veitt mun meira en efni eða áætlanir hafa staðið til. Við munum vel hverjar veiðar t.d. smábáta voru hér við upphaf kvótakerfisins og síðan hverjar þær eru orðnar í dag og það hefur að sjálfsögðu verið tilfærsla frá einum bátaflokk yfir til annars.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þarf þetta því ekki að koma neitt sérstaklega á óvart í ljósi alls þessa og í ljósi þess að kannski hafa menn verið fullfljótir á sér við að draga ályktun um hvað þessi breyting kann að hafa í för með sér. Eins hafa menn kannski ekki fullkannað hvaða tækifæri kunna að liggja í þessum breytingum. Þó vil ég segja að ef það er þannig að niðurstaðan verði sú að hér verði einhvers konar ólympísk keppni milli stórra og smárra báta um að nýta þann kvóta sem veiða má með ívilnun á þeim tímabilum sem skilgreind eru þá líst mér ekki vel á það. Ég held að það sé ekki hyggilegt hér við Íslandsstrendur norður í Atlantshafi. Það tel ég ekki vera. Eins og ég segi og margir hafa sagt hér í dag þá eru menn kannski ekki alveg með það á hreinu hvaða afleiðingar eða hvaða þróun kann að hljótast af því að þetta frv. verði að lögum.

Virðulegi forseti. Fyrr í dag fór ég í andsvar við hæstv. sjútvrh. sökum þess að ég benti á að ég tel að ástæða þess að frv. er komið hér fram sé sú að þeir þrír hv. þingmenn sem ég nefndi knúðu ríkisstjórnina til þess að leggja það fram. Ég sagði það líka að það væru augljós merki þess að hæstv. ríkisstjórn væri veikari nú en áður þegar ekki stærri hópur hv. þm. gæti knúið ríkisstjórnina til þess að leggja frv. af þessum toga fram.

Hæstv. ráðherra mótmælti þessum fullyrðingum mínum harðlega og taldi þær eiga heima í fjölmiðlum eða dægurmálaþáttum, ef ég man það sem hæstv. ráðherra sagði rétt, þó að ég hafi kannski ekki gert mér far um að muna það nákvæmlega. Ég held þó að ég sé ekki langt frá því sem hæstv. ráðherra sagði.

Af þeim sökum, virðulegi forseti, fór ég yfir yfirlýsingar hæstv. ráðherra í fjölmiðlum til þess að reyna að rifja upp hver afstaða hans hefur verið og hvað hæstv. ráðherra hefur sagt um þessi mál. Kannski var ég að draga fram hver afstaða hans hefur verið og hvort hér sé verið að bera hæstv. ráðherra röngum sökum þegar því er haldið fram að hann hafi verið knúinn til þess að leggja þetta hér fram þvert á sinn vilja.

Ég ætla að byrja á Ríkisútvarpinu 10. júlí 2003, með leyfi forseta:

,,Árni`` --- þ.e. hæstv. sjútvrh. --- ,,segir engu slegið föstu um það í stjórnarsáttmála að auka skuli byggðakvóta eða taka upp línuívilnun, slíkt hafi ekki heldur verið uppi á teningnum í stefnuræðu forsætisráðherra.``

Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra heldur því fram að engu sé slegið föstu um línuívilnun 10. júlí sl. í Ríkisútvarpinu og að það hafi heldur ekki komið fram í stefnuræðu hæstv. forsrh. Ég hef hins vegar ekki heyrt hæstv. ráðherra halda þessu fram síðar. En hér er þetta a.m.k. í útprentun af þessari frétt.

Síðan leyfi ég mér að halda áfram að fara yfir yfirlýsingar hæstv. ráðherra því þegar hæstv. ráðherra var í andsvari, virðulegi forseti, þá hafði ég á tilfinningunni --- og vel má vera að það hafi verið rangt hjá mér --- að menn gerðu kannski ekkert miklar kröfur til hæstv. ráðherra, hann mætti segja svona nokkurn veginn það sem honum fyndist og svo kæmi hann með það sem honum væri uppálagt að koma með þegar það ætti við.

Virðulegi forseti. Í ljósvakahandriti um Stöð 2 frá 8. ágúst 2003 segir, með leyfi forseta:

,,Þá telur hann`` --- þ.e. hæstv. sjútvrh. --- ,,kosta of miklar breytingar á veiðum næsta fiskveiðiárs`` --- þ.e. fiskveiðiársins sem byrjaði 1. september 2003 --- ,,til að ráðlegt sé að Alþingi skapi svigrúm fyrir línuívilnun á miðju fiskveiðiári.``

Með öðrum orðum telur hæstv. ráðherra það alveg af og frá að breyta lögum á miðju fiskveiðiári.

Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um það hvaða tímabil við erum að upplifa núna í þessum efnum þannig að út úr þessari yfirlýsingu hefur hæstv. ráðherra a.m.k. þurft að bakka.

Síðan segir hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu 9. ágúst 2003 að hann telji að ekki verði hægt að koma á línuívilnun fyrr en í fyrsta lagi 1. september árið 2004. En í frv. sem hér liggur fyrir á línuívilnunin að taka gildi 1. febrúar 2004 en línuívilnun gagnvart þorski 1. september 2004. Þessi yfirlýsing heldur því ekki heldur.

Sams konar yfirlýsing er höfð eftir hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu 17. ágúst 2003. Þar vísar hann til þess að þetta muni ekki geta tekið gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. september 2004.

Svo segir hæstv. sjútvrh. í Morgunblaðinu 16. september 2003 að það yrði óskynsamlegt að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á miðju fiskveiðiári.

Svo segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Menn hafa réttilega bent á að áður hafi verið gerðar breytingar á miðju fiskveiðiári en þrátt fyrir það er skynsamlegra að gera breytingar við upphaf fiskveiðiárs.``

Virðulegi forseti. Um miðjan september virðist hafa verið mikið að gerast hjá hæstv. sjútvrh. því að 15. september gefur hann hverja yfirlýsinguna á fætur annarri í öllum fjölmiðlum. Í Ríkisútvarpinu segir hæstv. ráðherra að línuívilnun verði tilbúin 1. september 2004. Í Ríkisútvarpinu sama dag, reyndar tíu tímum síðar, var sagt, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra segir ríkisstjórnina einhuga í því hvernig standa á að línuívilnun fyrir smábáta. Frumvarp verði lagt fram í haust sem taki gildi í byrjun næsta fiskveiðiárs, 1. september 2004.``

Svona hafa yfirlýsingar hæstv. ráðherra verið í gegnum tíðina.

En svo stingur sér inn í umræðuna hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og segir, með leyfi forseta:

,,Allir ráðherrar í ríkisstjórninni eiga ekki annarra kosta völ en að fara að samþykkt ríkisstjórnarinnar. Ef einn ráðherra ætla að vinna eitthvað eða gera eitthvað annað þá á hann að segja upp vist sinni sjálfur. Það þarf enginn að segja honum það. Þannig að ég er þess fullviss að Árni Mathiesen fer að stefnu ríkisstjórnar hvort sem honum líkar það nú betur eða verr.``

Síðan segir hæstv. sjútvrh. í sama fréttatíma, með leyfi forseta:

,,Ég hef auðvitað tekið þetta mál upp í ríkisstjórninni og þar voru engar athugasemdir gerðar við þá aðferðafræði sem að ég beitti í þessu máli. Þvert á móti, það voru allir sammála`` --- þ.e. öll hæstv. ríkisstjórn --- ,,um það að það væri rétt að fara í málið á þennan hátt og að stefna að því að leggja fram frumvarp á næsta þingi og fá það samþykkt og að síðan taki lögin gildi 1. september 2004.``

Virðulegi forseti. Svona eru allar yfirlýsingar hæstv. ráðherra sem ég leit á í dag. Nú spyr ég hæstv. ráðherra fullum fetum. Ég ætla að hlífa hæstv. ráðherra við að lesa yfir restina af því sem ég er hér með. Heldur hæstv. ráðherra því enn þá fram eftir þennan upplestur og eftir að hafa lagt annað til hliðar sem þessu tilheyrir að hann hafi gert þetta af fúsum og frjálsum vilja þó að því sé haldið fram í ræðustól Alþingis að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hafi verið knúin til þess af þeim þremur hv. þm. sem ég hér hef vitnað til og hafa barist einarðlega fyrir þessu máli og gert það þannig að ástæða er til þess að óska þeim til hamingju? Heldur hæstv. ráðherra þá því enn þá fram að hann hafi gert þetta af fúsum og frjálsum vilja?

Ef hæstv. ráðherra heldur því fram er hann einnig að segja að yfirlýsingar hans, þær sem ég rakti, virðulegi forseti, allt frá 7. júlí, hafi verið algerlega ómarktækar.

Hæstv. ráðherra leyfir sér síðan að koma í ræðustól þegar þetta er sagt og þetta er fullyrt og halda því fram að hér sé aðeins um að ræða þvælu sem eigi heima í dægurmálaþáttum. Eftir þetta, virðulegi forseti, held ég að hæstv. ráðherra ætti alveg að láta það eiga sig að vera í dægurmálaþáttum eða segja þá miklum mun minna.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi að fara mörgum orðum um það að þeir þrír hv. þm. sem ég hef vísað til hafa knúið ríkisstjórnina til þess að leggja þetta frv. fram. Það er alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að mótmæla því enda liggur það alveg fyrir.

Í upphafi máls míns velti ég því hins vegar fyrir mér hvort þau markmið sem hinir þrír hv. þm. stefndu að og vildu ná fram með framlagningu þessa frv. náist fram með þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir. Ég treysti mér ekki til þess að svara því hér. Mér virðist sem svo að frv. opni mjög fyrir það að allir geti stundað línuveiðar að uppfylltum þessum tveimur skilyrðum og mér hugnast það ekki ef niðurstaða þessa máls verður sú að þessum bátaflokkum, annars vegar þeim sem mér hefur skilist að sé verið að reyna að ívilna, þ.e. smábátum, og stærri skipum verði stefnt saman til þess að veiða tiltekinn tonnafjölda á tilteknu tímabili í einhvers konar kapphlaupi. Af því hef ég miklar áhyggjur því ég held að það sé afar hættulegt ef smábátum verður stefnt í þann farveg að stunda slíkar veiðar.