Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:20:49 (3080)

2003-12-10 20:20:49# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:20]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði mjög skilmerkilega um að hv. þm. Jóhann Ársælsson hefði verið gerður að ómerkingi en það er aðeins í málflutningi eins í þessum þingsal sem steinn hefur ekki staðið yfir steini og það er hjá hæstv. sjútvrh.

Ég vil þó segja, af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur verið duglegur að koma hér upp og spyrja menn út úr, að ég sagði í ræðu minni að ef skilningur minn á afstöðu flestra væri réttur, þótt hann gengi jafnvel ekki upp --- ég þori ekki að fullyrða það --- ef hugmyndin gengur út á það að færa aflaheimildir frá öðrum landshlutum en Vestfjörðum til Vestfjarða er ég andvígur málinu. Ég sagði hins vegar einnig að ég áttaði mig kannski ekki alveg nákvæmlega á því hvert innihald frv. væri og reyndi að kalla eftir því í þessari umræðu hvert innihaldið er. Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. Merði Árnasyni, ég er andvígur þessu frv. eins og það liggur fyrir en hugsanlega --- ég vil ekki útiloka það eftir vandlegan lestur á frv. --- þýðir það annað en flestir telja. Það er ekki hægt að útiloka það heldur. Vandi okkar, að standa frammi fyrir þessu frv. og taka afstöðu til þess, er kannski meiri en hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vill vera láta.

Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur aldrei lýst því yfir að Samf. styddi línuívilnun. Hann hefur ekki gert það. Það liggur fyrir, (Gripið fram í.) hann hefur aldrei lýst því yfir fullum fetum að þingflokkur Samf. styðji málið. (Gripið fram í.)