Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:23:04 (3081)

2003-12-10 20:23:04# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:23]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson lýsti því yfir að hann reiknaði með að Samf. styddi (LB: Hann reiknaði ...) þetta frv. (Gripið fram í: Já, já.) sem þarna var verið að ræða um. Hv. þm. skautaði hins vegar mjög fimlega fram hjá því að svara einföldum spurningum. Hann sagði ,,ef`` og ,,kannski``, ,,þá gæti verið að ég styddi ef það þýddi en ef það þýddi eitthvað annað`` (Gripið fram í.) en hv. þm. á auðvitað alveg nákvæmlega að vita hvaða afleiðingar lagasetning um línuívilnun hefur. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að láta eins og það hafi orðið einhver kúvending á einni nóttu um áhrifin af línuívilnun. Það lá alveg fyrir og við ræddum það ítarlega í kosningabaráttunni þannig að hv. þm. verður einfaldlega að skýra afstöðu sína til þessa máls.

Ég sagði í dag að það væri enginn vandi fyrir mig t.d. að segja: Ég er andsnúinn fyrningarleiðinni vegna þess að mér er ljóst hvað hún þýðir. (LB: Það er ekkert ...) Hv. þm. getur hins vegar ekki hlaupið svona frá þessu máli. Hann verður að skýra afstöðu sína og síns flokks og það verður að gerast með öðrum hætti en með einu frammíkalli sem er reyndar skýrasti málflutningur Samf. hér í dag, í allan heila dag, þetta eina frammíkall. Það út af fyrir sig ber að virða. En ég var að kalla eftir afstöðu og hv. þm. hefur hér þinglegt tækifæri til að svara þessum málum og skýra afstöðu sína betur en hann hefur gert. Hér liggur fyrir frv. um línuívilnun. Það lá fyrir annað frv. um línuívilnun. Þá stóð ekki á þingmönnum Samf. að lýsa yfir hollustu sinni við það. Ég spyr: Hvað hefur breyst? Hvað er öðruvísi efnislega sem gerir það að verkum að hv. þm. kemst skyndilega í þennan mikla vanda sem virtist ekki hafa verið fyrir hendi þegar málin voru rædd á fyrri stigum?