Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:25:05 (3082)

2003-12-10 20:25:05# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:25]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að vandi minn er ekki mikill. Vandi minn er ekki neinn. Það er mjög auðvelt að svara þessu og það hef ég margoft gert. Ég hef sagt: Ég er andvígur því sem ég hef talið markmið þessa frv. Ég hef hins vegar lesið það vandlega yfir og komist að því að ég er ekki endilega viss um ... (Gripið fram í: ... veiðiréttinn.) ... að flytja veiðirétt af öðrum landsvæðum yfir á Vestfirði. Ég hef verið andvígur slíkri aðgerð, já. Ég hef sagt það margoft. En ég segi kannski það sama og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði í ræðu sinni í dag. Ég skrifaði það niður. Hann sagði að það væru ,,mörg matsatriði eftir sem áður í frumvarpstextanum sem ég tel nauðsynlegt að við förum yfir``. Þetta sagði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Af því að hv. þm. hefur talað fyrir þessu og hefur kannski verið meira ofan í þessum málum en ég ætla ég að leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar. Hv. þm. er ekki alveg með það á hreinu hvað þetta þýðir. Ég er heldur ekki alveg með það á hreinu hvað þetta þýðir en eini maðurinn sem virðist vera með þetta á hreinu er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson.

Og ég verð að segja það líka að það er ólíkt auðveldara fyrir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að taka afstöðu til fyrningarleiðar því það er nokkuð skýrt hvað í henni felst. En hvað í þessu felst, virðulegi forseti, er langt frá því að vera skýrt, eins og ég skil það.