Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:26:46 (3083)

2003-12-10 20:26:46# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EOK
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:26]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, svokölluð línuívilnun sem menn eiga dálítið erfitt með að bera fram, og sumir held ég að skilji ekki alveg hvað þýðir. (Gripið fram í: Það fer eftir því hvað ...) En ýmsir hafa gefið sig fram á undanförnum missirum og tjáð sig um það að þeir væru mjög á móti ívilnun þessari. Sumir þeirra sem tjá sig eru þeirrar gerðar að ég hirði lítið um þegar þeir snúa að mér en einn er sá hópur sem ég hef mikið dálæti á og tel til mikilla vina minna og sem hafa mjög tjáð sig gegn slíkri mismunun en það er Samband ungra sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.)

Ég ætla að segja að það geta verið mjög réttlætanleg sjónarmið að menn séu á móti mismununum, alls kyns ívilnunum, og það sem ég þekki til þess góða fólks sem er í forustu ungra sjálfstæðismanna --- þekki það að góðu einu --- veit ég og vona að þegar það er sjálfu sér samkvæmt treysti ég og trúi að það muni einbeita sér að því að kynna sér málið, sérstaklega stóru ívilnunina í fiskveiðistjórn Íslendinga. Þegar það er búið að kynna sér það til hlítar langar mig mikið til að ræða við þetta góða fólk.

Þetta mál hefur kannski margar hliðar, virðulegi forseti, en mín hlið á þessu máli er mjög einföld og ég skal fara yfir hana nokkrum orðum. Á landsfundi Sjálfstfl. í haust var þessi samþykkt gerð. Í kosningabaráttunni í vor höfðum við þetta á oddinum mjög vegna þess að rökin fyrir samþykktinni lágu fyrst og fremst og nær eingöngu í því að með þeirri yfirlýsingu vildi flokkurinn styðja sjávarbyggðir Íslands. (Gripið fram í: Á Vestfjörðum.) Vildi styðja sjávabyggðir Íslands á Vestfjörðum svo sem annars staðar. Ég er í engum vafa um að þessi yfirlýsing og sú hugsun sem á bak við lá var flokknum mjög veigamikil í þessum kosningum. (Gripið fram í.) Ég hef ekki efast um að það ætti að misskilja á einhvern hátt yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála um það að hún vildi stuðla að þessu og ætlaði sér að gera það. Ég hef haldið því fram í ræðum og riti, alls staðar þar sem þetta hefur verið rætt í fjölmiðlum og annars staðar, að að sjálfsögðu tryði ég því að við mundum gera þetta og ég ætla að leggja mig allan fram til að styðja málið. Þannig lítur málið út frá mínum bæjardyrum, þannig stend ég hér, virðulegi forseti, til að lýsa yfir miklum stuðningi og ánægju með þetta frv.

Það hefur hins vegar komið fram að sumir hafa önnur sjónarmið, eins og ég nefndi áðan. Menn hafa mótmælt þessu mjög harðlega og þar hefur gengið fremst í flokki stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna. Eins og ég þekki þennan veruleika voru einmitt flestir úr þeirri stjórn á þeim sama landsfundi og ég nefndi áðan þar sem samþykktin var gerð. Þeir beittu sér mjög gegn hlutunum. Þeir töpuðu. (Gripið fram í: Það var búið að ákveða það.) (ÖS: Er það deild í Sjálfstfl.?) Þeir töpuðu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Vinir mínir í salnum tala svo mikið saman og eru svo ánægðir að þeir hafa truflað dálítið ræðu mína. Ég vil fá lengingu á henni ef ég þarf að hlusta svo mjög á tal þeirra. (ÖS: Þú talar tvisvar.) (Gripið fram í.)

[20:30]

Þeir sem voru andvígir þessu frv. innan Sjálfstfl. kusu að þegja í kosningabaráttunni. Þeir sögðu ekkert þegar flokkurinn og forustan lýstu yfir stuðningi og ætluðu að gera þessa samþykkt að sinni. En eftir kosningar, eftir að ríkisstjórnin hafði komið með sína sáttmála, hófu þeir baráttu sína og hafa verið óvægnir síðan, fundið þessu flest til foráttu. Síðustu fréttirnar eru þær að jafnvel fiskvinnslan riði til falls. Forseti lýðveldisins mátti heyra það á Dalvík fyrir nokkrum dögum að þetta væri hin mesta vá sem yfir þá hefði komið nýlega. Það er mjög slæmt, virðulegi forseti, þegar menn fara að taka svona mál þessum tökum eins og stjórn LÍÚ hefur gert á undanförnum mánuðum. Það er mjög slæmt þó að það sé mikið prinsippmál og hafi mikla þýðingu pólitískt, þá er þetta ákaflega lítið mál varðandi fiskveiðistjórnina. Sáralítið eins og allir vita sem lesa þetta frv.

Það er þó eitt sem ég hef tekið eftir í umræðunni frá forustu LÍÚ sem vekur athygli mína. Ég las það í Morgunblaðinu að einn þeirra, sem ekki er hvað lágværastur, talaði um að menn ættu að sýna sanngirni. (Gripið fram í: Hver er það?) Sanngirni. Þetta orð var ekki til hér áður fyrr. (Gripið fram í: Ekki í LÍÚ?) Ég minnist áranna 1984--1990 þegar valdníðslan náði hæð fjallanna, þá var þetta orð ekki til. Ég veit ekki hvort það hafi einhverja þýðingu núna en ég hlýt að fagna því, vegna þess að það er mjög brýnt og þýðingarmikið að stjórn LÍÚ taki virkan þátt í því að það sem fyrir okkur liggur varðandi fiskveiðistjórnina er það að við höfum ekki náð þeim árangri sem við trúðum. Það liggur fyrir að hvergi þar sem ICES hefur verið að stjórna bolfiskveiðunum höfum við náð árangri. Það liggur líka fyrir að um allt Norður-Atlantshafið eru vísindamenn í stórum stíl, meira að segja stjórn ICES sjálf, að komast að þeirri niðurstöðu að það sé eitthvað stórkostlegt að og hættan á því að við séum að framkvæma hér úrkynjun er vaxandi hjá vísindamönnum. Mjög margir eru farnir að taka undir það að menn verði að fara að skoða þessa hluti. Það liggur því fyrir þjóðþinginu á Íslandi og öllum öðrum þjóðum við Norður-Atlantshaf að endurskoða þær aðferðir sem við eigum að nota við fiskveiðistjórn.

LÍÚ, Landssamband ísl. útvegsmanna, er handhafi veiðiréttindanna og það hefur aldrei staðið annað til en að íslensk útgerð sé handhafi veiðiréttindanna. Stjórnvöld bera hins vegar ábyrgð á náttúru Íslands, þessari náttúru sem varðar okkur öll, þessari náttúru sem fæðir okkur og klæðir og skiptir öllu máli hvernig við meðhöndlum. Það skiptir því máli hvaða veiðarfæri við notum, hvernig við notum þau og hvenær við notum þau. Það er ljóst að við þurfum að þræða þessa slóð af mikilli nákvæmni, mikilli gerhygli og við verðum að vanda okkur og við verðum að leita allra leiða til að ná meiri árangri en við höfum náð til þessa. Það er viðfangsefnið. Þess vegna vona ég að svona hávaði eins og hefur verið í þjóðfélaginu út af þessu tiltölulega litla máli sé undantekning og menn átti sig á því að það þýðir ekki annað fyrir stjórnvöld en að feta sig áfram. Hið æskilega og hið rétta væri að handhafar veiðiréttindanna eða sóknarréttindanna, hvað sem við köllum það, séu með í því og átti sig á því að þetta er ekki rifrildi heldur hlutur sem allir verða að leggja sig fram um. Það er nefnilega umgengnin við þessa náttúru sem skiptir okkur öllu máli og þetta frv. er lítið skref í að viðurkenna, þó að hið pólitíska fororð hefði verið skipting landsbyggðanna megum við ekki gleyma því að við erum líka að styrkja þarna línuveiðarnar sem mjög margir hafa mælt með að væri hið rétta, veiðarfæri sem eru ekki stærðarveljandi, veiðarfæri sem ekki raska náttúru botnsins þar sem fiskarnir lifa.

Þessi umræða í dag, virðulegur forseti, hefur verið dálítið skondin fyrir minn smekk. Mér hefur komið dálítið á óvart frammistaða og ummæli stjórnarandstöðunnar um þessa ívilnun. Stundum þegar ég hlusta á ræður hv. þm. og vina minna og samþingsmanna í Norðvesturkjördæmi, þeirra hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og hv. þm. Jóns Bjarnasonar þá hvarflar hugurinn til æsku minnar heima á Flateyri. Þegar ég var ungur drengur að alast þar upp bjó þar ágætismaður sem var þeirrar náttúru, virðulegi forseti, að því lengur sem hann talaði þeim mun ótrúlegra var að nokkur maður vissi hvað hann vildi sagt hafa. Þannig er nú með þessi ræðuhöld þeirra í dag. Alveg er mér fyrirmunað að vita hver skoðun þeirra er á málinu. Þó fannst mér merkilegast af öllu í dag þegar ung virðuleg þingkona frá Frjálsl. kom og hélt sína ágætu jómfrúrræðu. En þar sagði virðulegi ungi þingmaðurinn að Frjálsl. ætlaði ekki að styðja og teldi fráleitt að styðja svona mál sem þar að auki mundi valda miklum deilum, hatrömmum deilum. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað hefur komið fyrir þann ágæta flokk Frjálsl. þegar hann hættir að styðja mál um breytingar á fiskveiðistjórninni sem vekja deilur? Eru þeir bara hættir? Má maður treysta því að þeir séu hættir? Eru þeir búnir að leggja flokkinn niður? Þá getur maður sagt eins og skáldið Steinn Steinarr þegar hann orti um hinn dána flokk, Kommúnistaflokk Íslands in memoriam, sic transit gloria mundi (Gripið fram í: Mundi ég segja.) mundi ég kannski segja, já. Það verður fróðlegt, virðulegi forseti, og ég býst við því að það eigi eftir að hlægja mig ef það kemur í ljós innan nokkurra sólarhringa að Frjálsl. ætli að greiða atkvæði gegn þessu frv. Það gæti orðið nokkuð gaman að því.

Ég ætla að taka það sérstaklega fram að ég ætla að fá að fagna 3. gr. þessa frv. mjög mikið, sem er hin aukna tegundatilfærsla. Ég ætla að fagna þeirri stefnubreytingu sem þarna er hjá hæstv. sjútvrh. Það hefur verið mikið harðlífi gagnvart þessum hlutum hjá sjútvrn. á undanförnum árum. Ég sé að þarna er mjög mikil stefnubreyting og ég fagna henni mjög. Eins og allir vita er ákvörðun um þessar aukategundir meira og minna ágiskun. Það eru engin vísindi sem liggja á bak við þetta. Allir vita þetta þó að sumir kjósi að þykjast ekki vita það. Ég vona því að hæstv. sjútvrh. nýti þessa heimild mjög ríflega þegar hún er komin í ný lög. Sérstaklega er þörf á því gagnvart löngunni og keilunni, fráleitt eins og það er í dag. Ég vona að hann hafi þetta ríflegt, svona 10--20%. Þess þarf og menn eiga að vera liðlegir í þessu og eiga að hjálpa útgerðinni eins og hún stendur, sérstaklega stórútgerðinni sem þarf mjög á þessu að halda.

Um byggðakvóta hefur verið töluvert rætt á þinginu bæði nú og fyrr. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að stjórnvöld hverju sinni, skiptir ekki máli hvaða flokkar það eru, komist ekki hjá því að hafa lögin þannig að stjórnvöldin eigi völ á því að beita lögunum til þess að hjálpa ýmsum landsvæðum eða litlum byggðarlögum sem lenda í miklum vanda út af fiskveiðheimildum eða sóknarheimildum. Ég held að sú heimild eigi að vera til og sjútvrh. á að hafa hana. Hann getur kannski úthlutað henni í samráði við félmrh. Það kann að vera ágætt. En heimildin á að vera til og verður að vera til. Ég er ekki viss um að það þurfi að taka þær heimildir af neinum öðrum. Þær geta bara verið viðbót. Það eru engin vísindi í þessu sem segja að svo megi ekki vera.

Ég held líka, virðulegi forseti, að þessar heimildir miðað við reynsluna sem við höfum fengið væru best komnar þannig að ráðherrar úthlutuðu þeim til vinnslustöðva í viðkomandi byggðum. Þá mundu þær nýtast best og þeir gætu haft þetta á valdi sínu. Þá gætum við treyst því að það kæmi atvinnu viðkomandi byggðarlags til góða.

Ég tel líka rétt, virðulegi forseti, áður en ég lýk máli mínu, að geta þess að ég hafði við orð fyrir rúmri viku síðan, opinberlega, að ég sæi ekki að sjútvrn. hefði lyft litla fingri til að þoka þessu máli áfram eins og sagt hafði verið, þ.e. að undirbúa þessa línuívilnun. Þegar ég fór síðan í sjútvrn. og fór að kynna mér málið og ræða við hæstv. sjútvrh. og hans menn, komst ég að því að þeir hefðu unnið meira í þessu máli og voru komnir lengra áleiðis en ég hugði og það er rétt að geta þess hér og segja frá því að þannig var það.