Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:52:35 (3093)

2003-12-10 20:52:35# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:52]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég bjóst við því að hv. þm. Jóhann Ársælsson mundi nota ræðutíma sinn í að skýra fyrir mér það sem ég hafði ekki skilið í staðinn fyrir að nota tækifærið til að spyrja mig að því sem ég var búinn að svara. Ég var búinn að svara mjög skýrt. Þetta stjórnarfrumvarp liggur fyrir með stuðningi mínum, virðulegi forseti. Ég hef lýst því yfir og líka sagt frá því að ég hafi tekið þátt í samningum um að gera það að veruleika.

Það er ekki þar með sagt að frv. sé allt eftir mínum óskum. Þetta vita allir, virðulegur forseti. Menn gera ekki svona hluti öðruvísi en að ná samkomulagi. Samkomulagið er aðalatriðið vegna þess að það er pólitísk og byggðaleg nauðsyn að ná saman um þennan áfanga.